„Hér hefur mér liðið vel,“ sagði Bjarni. Hann sagðist hafa fengið góðan stuðning frá starfsfólki og var viss um að hún myndi fá hann einnig.
„Ég veit að þér mun sömuleiðis líða vel hér,“ sagði Bjarni. „Ég vona að þú náir góðum árangri fyrir land og þjóð.“
Kristrún þakkaði fyrir sig og þakkaði Bjarna fyrir góð störf hans undanfarin ár og í fyrrverandi ríkisstjórnum.
Eftir afhendinguna sagði Kristrún tilfinninguna góða. Hún væri meðvituð um að mikið þyrfti að gera.
„Fyrstu verkefnin verða að taka hring, heilsa upp á starfsfólk og fá tilfinningu fyrir teyminu sem ég er að fara að vinna með,“ sagði Kristrún. Hún sagði skipuleggja þyrfti fyrsta ríkisstjórnarfundinn og fara yfir verkaskiptingu út frá stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
„Svo hrindum við mikilvægustu verkefnunum í gang í ráðuneytunum.“
Bjarni sagðist hafa verið nógu lengi í pólitík til að skilja gangverk stjórnmála. Hann hefði kallað til nýafstaðinna kosninga og það væri í hlutarins eðli að breytingar gætu átt sér stað.
„Nú er komið að þessari stund. Nú hafa flokkar sem fara sameiginlega með meirihluta á þingi ákveðið að starfa saman og af því að leiðir að það verða hér valdaskipti í stjórnarráðinu. Jájá. Það eru talsverð tímamót fyrir mig. Ég hef verið í ólíkum ráðherraembættum frá 2013 en lít mjög stoltur um öxl,“ sagði Bjarni.
Bjarni sagðist einnig ekkert hafa pælt í því hvort hann myndi halda nýársávarp eða ekki.