Erlent

Bif­reið ekið á hóp fólks á jóla­markaði

Tómas Arnar Þorláksson skrifar
Frá vettvangi.
Frá vettvangi. AP/Dörthe Hein

Bifreið var keyrt á hóp fólks sem var samankomið á jólamarkaði í borginni Magdeburg í Þýskalandi rétt í þessu. Ökumaðurinn var handtekinn á vettvangi. Að minnsta kosti einn er látinn og tugir annarra slasaðir.

Samkvæmt þýsku fréttastofunni Spiegel var svörtum BMW keyrt á ofsafengnum hraða á tugi gangandi vegfarenda á jólamarkaðnum. Samkvæmt fyrstu fregnum frá vettvangi er að minnsta kosti einn látinn.

Viðbragðsaðilar sögðu í samtali við fréttaveituna AFP að um það bil 60 til 80 manns væru slasaðir eftir atvikið. Matthias Schuppe, talsmaður stjórnvalda í Þýskalandi sagði í tilkynningu að líklegast væri um skipulagða árás að ræða.

Jólamarkaðurinn er við ráðhús borgarinnar og er sagt að ökumaðurinn hafi keyrt í beina átt að ráðhúsinu. Myndefni frá vettvangi hafa farið í dreifingu á netinu sem sýnir tugi manna liggja á jörðinni eftir atvikið. Viðbragðsaðilar eru á vettvangi. Biðlað er til fólks að yfirgefa miðborgina.

Myndskeiðið hér fyrir neðan er frá vettvangi og virðist sýna handtöku ökumannsins.

Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagði í færslu á X að hugur hans væri hjá fórnarlömbum árásarinnar. „Fyrstu fregnir frá Magdeburg fá okkur til að óttast það versta,“ skrifaði hann og þakkaði öllum viðbragðsaðilum fyrir vel unnin störf.  

Mikil viðbúnnaður er á vettvangi. Viðbragðsaðilar hlúa að tugi manna.AP/Dörthe Hein

Fréttin verður uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×