Þann 19. október lést hinn sautján ára gamli Geir Örn Jacobsen í eldsvoða á Stuðlum. Tveimur dögum áður hafði hann lýst slæmu ástandi inni á meðferðarheimilinu í viðtali við Stöð 2. Úlfur Einarsson, forstöðumaður Stuðla, hafði áður talað opinskátt um alvarlega stöðu á meðferðarheimilinu í Kveik á RÚV, en var sendur í leyfi frá störfum þremur dögum fyrir brunann. Úlfur er nú snúinn aftur til starfa og segir margt hafa breyst vegna þessa alvarlega atburðar.
„Neyðarvistunin okkar er rekin núna með skertri afkastagetu miðað við það sem var áður. Nú höfum við bara rými fyrir fjögur börn á mun þrengra svæði en áður. En við teljum okkur hafa komið þessu þannig fyrir að aðstæður séu ásættanlegar í svona skammtímavistun,“ segir Úlfur.

Hann segir eldsvoðann hafa reynst starfsfólki erfiður.
„Ég meina, hér lést skjólstæðingur. Það tekur mjög á fólk, hvort sem það var viðstatt þegar atburðurinn gerist eða ekki. Maður finnur að hópurinn tekur það mjög inn á sig,“ segir Úlfur.
Aðstæður á Stuðlum eru þó enn ekki nægilegar góðar. Húsnæðið hefur ekki stækkað í takt við fjölgun þeirra sem þurfa á úrræðinu að halda. Húsið var byggt fyrir tæpum þrjátíu árum. Hins vegar glíma Stuðlar við fjárskort.
„Það er frekar erfitt hjá okkur núna. Þjóðinni fjölgar og þessi starfsemi þarf að taka mið af því líka,“ segir Úlfur. „Ég held það séu allir meðvitaðir um það sem koma að þessum málaflokki og vinna í honum að það þarf meira. Og ég held það sé fullur skilningur hjá þeim sem hafa með það að gera, að gera betur,“ segir Úlfur.
