Aftonbladet ræddi við ellefu fyrrverandi og núverandi starfsmenn fyrirtækisins Djerf Avenue á dögunum sem sögðu farir sínar ekki sléttar af eigandanum, sem er jafnframt einn þekktasti áhrifavaldur heims um þessar mundir.
Viðmælendur sögðust ýmist hafa orðið vitni að einelti á vinnustaðnum á hverjum degi, Djerf hafi brotið starfsfólk sitt niður með niðurlægingum og hrópum og sýnt af sér yfirlæti og hroka.
Þá er Djerf sökuð um fitusmánun, þrátt fyrir að fyrirtækið stærði sig iðulega af því hve margar stærðir væru í boði á fötum Djerf Avenue.
Djerf hefur nú birt afsökunarbeiðni á Instagram síðu sína, þar sem hún biður hvern þann sem hún kann að hafa sært afsökunar.
„Þegar ég stofnaði Djerf Avenur bjóst ég aldrei við að starfsmennirnir yrðu svona margir og ábyrgðin svona mikil. Ég var ekki tilbún. Ég hef aldrei fyrr stjórnað fyrirtæki, og vegna mikils álags og tíðra breytinga mistókst mér að vera sá leiðtogi og samstarfsmaður sem mig langar til að vera,“ segir meðal annars í færslunni.
Hún segist þegar hafa gert ráðstafanir til þess að bæta vinnuumhverfið. Hún hafi til að mynda ráðið inn reyndari framkvæmdastjórn og ráðið sálfræðing og annan mannauðsfulltrúa til starfa hjá fyrirtækinu. Þá hyggst hún sjálf líta í eigin barm.