Handbolti

Læri­sveinar Gumma Gumm úr leik í bikarnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fredericia, getur verið svekktur með frammistöðu sinna manna í seinni hálfleiknum.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Fredericia, getur verið svekktur með frammistöðu sinna manna í seinni hálfleiknum. EPA-EFE/Tamas Vasvari

Fredericia, lið Guðmundar Guðmundssonar, datt í kvöld út úr danska bikarnum eftir tap á útivelli á móti Sönderjyske í átta liða úrslitum Santander bikarsins í handbolta.

Sönderjyske vann leikinn á endanum með sex marka mun, 29-23, en með þessum sigri tryggði liðið sér sæti á bikarúrslitahelginni.

Fredericia var með frumkvæðið í fyrri hálfleiknum og einu marki yfir í hálfleik, 14-13. Þetta leit því ágætlega út.

Í þeim síðari hrundi leikur liðsins en Sönderjyske skoraði tólf af fyrstu sautján mörkum hálfleiksins og vann hálfleikinn á endanum16-9.

Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði eitt mark fyrir Fredericia í kvöld en markahæstur hjá liðinu var Anders Kragh Martinusen með sex mörk.

Markvarslan var lítil sem engin hjá liðinu en gamli Valsarinn Martin Nagy náði aðeins að verja þrjú af 21 skoti sem hann reyndi við en það gerir bara fjórtán prósent markvörslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×