Erlent

Harm­leikur í Noregi: Ná­grannar höfðu þungar á­hyggjur af fjöl­skyldunni

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögregla var kölluð út í norska bænum Ski vegna morðsins klukkan 17:30 að norskum tíma í gær, laugardag.
Lögregla var kölluð út í norska bænum Ski vegna morðsins klukkan 17:30 að norskum tíma í gær, laugardag. Getty/Nigel Killeen

Lögregla í Noregi handtók í gær konu sem grunuð er um að hafa myrt móður sína og bróður í bænum Ski, skammt suður af Osló. Lögregla hefur lagt hald á vopn sem hún telur að sé morðvopnið.

Norska ríkisútvarpið NRK segir að hin grunaða sé á fimmtugsaldri og bróðir hennar einnig. Móðirin hafi verið á áttræðisaldri. Öll hafi þau verið skráð til heimilis á sama stað. 

Tilkynning um að tvær látnar manneskjur hefðu fundist í húsi í bænum hafi borist lögreglu um klukkan hálf sex síðdegis í gær að staðartíma. Lögregla hefur ekkert viljað gefa upp um mögulega ástæðu að baki morðinu. Ekkert þeirra sem hlut eiga að máli hafi komið til kasta lögreglu áður. 

Norska dagblaðið Verdens gang hefur eftir nágrönnum fólksins að þeir hafi lengi haft áhyggjur af fjölskyldunni, sérstaklega móðurinni. Einn kveðst hafa tilkynnt áhyggjur sínar til bæjaryfirvalda og að hann hafi raunar ekki séð móðurinni bregða fyrir í heil sjö ár. Annar segir hús fjölskyldunnar hafa verið í mikilli niðurníðslu og þar hafi alltaf verið myrkur inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×