Fótbolti

Sér mögu­leika í riðli Ís­lands: „Mér finnst þetta ekkert svart­nætti“

Aron Guðmundsson skrifar
Orri Óskarsson, sóknarmaður Íslands mun leika stórt hlutverk í komandi undankeppni Íslands fyrir HM 2026 í fótbolta. Hann er einn af þessum frambærilegum sóknarmönnum sem Baldur Sigurðsson segir Ísland eiga. 
Orri Óskarsson, sóknarmaður Íslands mun leika stórt hlutverk í komandi undankeppni Íslands fyrir HM 2026 í fótbolta. Hann er einn af þessum frambærilegum sóknarmönnum sem Baldur Sigurðsson segir Ísland eiga.  vísir/Hulda Margrét

Dregið var í riðla fyrir undan­keppni HM 2026 í fót­bolta karla í gær. Ís­lenska lands­liðið var í pottinum og tekur sér­fræðingurinn og fyrr­verandi at­vinnu- og lands­liðs­maðurinn Baldur Sigurðs­son ekki undir bölsýnis­spár um mögu­leika Ís­lands. Hann hefur trú.

Ís­land mun verða í krefjandi riðli með sigur­vegaranum úr ein­vígi Frakk­lands og Króatíu í Þjóða­deildinni sem og Úkraínu og Azer­ba­i­jan. Efsta lið hvers riðils fer beint áfram. Liðin í 2.sæti fara í um­spil.

„Mér lýst bara nokkuð vel á þetta. Að sjálfsögðu hefði maður alltaf geta óskað sér betri riðils en mér finnst þetta ekkert svartnætti. Maður varð strax var við neikvæðnis­raddir en ég er ekki alveg jafn neikvæður. Ef ég horfi á liðin sem við erum að fara mæta. Tökum fyrst efsta styrk­leika­flokkinn fyrir þar sem að við mætum annað hvort Frökkum eða Króötum þá finnst mér lík­legt að við séum að fara fá Frakkana í okkar riðil. Staðan hjá þeim hefur verið betri. 

Í Úkraínu erum við svo að fara mæta and­stæðingi sem við könnumst nú við. Mættum þeim nú síðast í um­spili á síðasta ári úti og vorum býsna nálægt því að slá þá út. Ég er miðlungs sáttur með þetta. Hef ekki miklar áhyggjur af Azer­baíjan en það verða vissu­lega mjög krefjandi leikir við Úkraínu og liðið úr efsta styrk­leika­flokki. Ég sé mögu­leika.“

Klippa: Bjartsýnn á möguleika Íslands í undankeppni HM

Ef horft sé á riðilinn með raunsæis gler­augum ætti baráttan um annað sætið að vera við Úkraínu.

„Sem mér finnst alveg ger­legt. Úkraína er skrýtinn and­stæðingur að mæta. Geta gert bestu lands­liðum heims skráveifu en maður sér það þó einnig á úr­slitum þeirra að þeir geta dottið niður og átt slæm úr­slit á móti minni spámönnum sem við kannski erum í þessu til­felli.

Mér finnst ís­lenska liðið spennandi. Finnst við hafa lið sem getur strítt þessum stærri liðum ef við náum aðeins að þétta varnar­leikinn því sóknar­lega lítum við frábær­lega út ef við höfum úr öllum okkar mönnum að velja.

Það er spennandi mót fram undan. Fyrsta HM sem að ég féll fyrir var árið 1994 í Bandaríkjunum. Ég er fæddur árið 1985 og það vekur upp frábærar minningar að hugsa til þess að Ís­land gæti mögu­lega verið með lið á HM í Bandaríkjunum, Mexíkó og Kanada árið 2026. Ég er gríðar­lega spenntur fyrir þessu og verð fyrsti maður til að kaupa mér miða á leiki Ís­lands á HM ef við förum þangað. Ég vona að við förum áfram úr þessum riðli.“

Ís­land hefur leik í riðla­keppninni í septem­ber á næsta ári og henni lýkur í nóvember, eins konar hraðmót. Óvíst er á þessari stundu hver muni stýra liðinu í undan­keppninni. Leit að lands­liðsþjálfara stendur yfir. Sá mun hafa nóg fyrir stafni á næsta ári.

„Mómentum, meiðsli, hvaða þjálfara erum við að fara fá í brúna og hvaða tíma hefur hann til að undir­búa sig. Nú liggur dálítið á. Nú þurfum við að fara fá inn þjálfara. Fá inn verk­efni og hann þarf að fá tíma. Öll smá­at­riði skipta máli í þessum heimi. Sér­stak­lega þegar að þú ert kominn inn í þennan lands­liðs­heim. Nú ærið verk­efni fram­u og mjög spennandi að sjá hvað KSÍ ætlar að gera með þjálfarann.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×