Fótbolti

Elías braut bein í Porto

Sindri Sverrisson skrifar
Elías Rafn Ólafsson svekktur á svip eftir að hafa handarbrotnað í gærkvöld.
Elías Rafn Ólafsson svekktur á svip eftir að hafa handarbrotnað í gærkvöld. Getty/Jose Manuel Alvarez Rey

Landsliðsmarkvörðurinn Elías Rafn Ólafsson endaði á sjúkrahúsi í gærkvöld, eftir að hafa meiðst þegar tuttugu mínútur voru eftir af leik Midtjylland við Porto í Evrópudeildinni í fótbolta.

Elías fór af velli eftir að hafa fundið mikla verki og nú hefur Midtjylland gefið það út að þessi 24 ára markvörður handarbrotnaði í leiknum. Það gerðist þegar Samu Aghehowa, framherji Porto, var í kapphlaupi um boltann en Elías náði að kasta sér fram og slá boltann í burtu, áður en Aghehowa sparkaði óvart í hönd hans.

Allt bendir til þess að Elías þurfi að fara í aðgerð af þessum sökum, samkvæmt tilkynningu Midtjylland, og er búist við því að hann verði frá keppni næstu mánuðina.

Svona leit höndin út eftir að Elías Rafn brotnaði í gærkvöld.Skjáskot

Midtjylland tapaði leiknum í gær 2-0 og er í 23. sæti Evrópudeildarinnar, með sjö stig eftir sex leiki af átta. Liðið er í harðri baráttu á toppi dönsku úrvalsdeildarinnar, jafnt FC Kaupmannahöfn að stigum í 1.-2. sæti eftir sautján umferðir.

Elías sneri aftur til Midtjylland í sumar eftir lánsdvöl í Portúgal og hefur fest sig í sessi sem aðalmarkvörður danska liðsins á nýjan leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×