Lífið

Friður og fegurð með silfurrefunum í Sigur Rós

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jónsi syngur, Georg til hægri á klukkuspilinu og Ólafur Björn við píanóið. Stjórnandinn Robert Ames snýr að hljómsveitinni. Einhverjum gestum var vafalítið hugsað til þess að vera kominn á tónleika Sinfó og Sigur Rósar þótt Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi ekki verið hluti af þessu verkefni. Kannski síðar.
Jónsi syngur, Georg til hægri á klukkuspilinu og Ólafur Björn við píanóið. Stjórnandinn Robert Ames snýr að hljómsveitinni. Einhverjum gestum var vafalítið hugsað til þess að vera kominn á tónleika Sinfó og Sigur Rósar þótt Sinfóníuhljómsveit Íslands hafi ekki verið hluti af þessu verkefni. Kannski síðar. Mummi Lú

Það er hægt að ganga að ýmsu sem vísu í lífinu. Jólin koma í desember, Sjálfstæðisflokkurinn réttir við kannanafylgi sitt í kosningum og enginn verður svikinn af kvöldstund með Sigur Rós. 

Tilkynnt var í vor að hljómsveitin myndi ljúka tónleikaferðalagi sínu með strengjasveitum í Eldborg nú í desember. Uppselt varð á augabragði svo bætt var við einum og svo öðrum aukatónleikum. Fyrstu af þremur voru í gærkvöldi, á sunnudagskvöldi, og eiga miðahafar á seinni tónleikana í kvöld og annað kvöld ljúfa stund fyrir höndum.

Merkja mátti mikla eftirvæntingu í Eldborgarsal Hörpu. Reykvél fyllti salinn af reyk með tilheyrandi lykt og drungalegheitum. Mummi Lú

Sigur Rós sendi frá sér sína áttundu hljóðversplötu sumarið 2023, plötuna Átta. Hún hefur hlotið lof í fjölmiðlum um heim allan en með útgáfunni rauf sveitin tíu ára útgáfuhlé frá því Kveikur kom út sumarið 2013. Í hálfan annan áratug þar á undan höfðu strákarnir hlotið heimsfrægð, ferðast með Radiohead, samið lög fyrir Hollywood-bíómyndir, sagt nei takk við Jay Leno, komið fram í The Simpsons og haldið fleiri hundruð tónleika. Nú eru strákarnir komnir með grátt í vanga, farnir að snúa sér að myndlist eða björgunarsveitarstörfum - já, Sigur Rós er orðin miðaldra. 

Óhætt er að segja að áratugahlé hafi verið tíðindalaust. Sveitin breyttist úr kvartett í tríó eftir brotthvarf Kjartans Sveinssonar sem sneri svo aftur í fyrra. Orri Páll Dýrason trommari kvaddi sveitina árið 2018 og Ólafur Björn Ólafsson hefur lamið húðirnar síðan. Svo gleymist seint hörð barátta við Skattinn fyrir dómstólum. Hún tók sinn toll en lauk loks í fyrra með sigri sveitarinnar.

Sigur Rós hefur verið á Norðurlandaflakki undanfarnar tvær vikur í Finnlandi, Noregi, Svíþjóð og Danmörku áður en sveitin kom til landsins á föstudag. Sveitin hefur spilað með 41 manns strengjasveitum í hverju landi fyrir sig og hér heima er það Elja sem stendur vaktina með sveitinni í Eldborgarsal Hörpu.

Tónleikar Sigur Rósar í gegnum tíðina hafa margir hverjir verið mikið sjónarspil. Ekki aðeins í tilburðum tónlistarfólksins þar sem mikið hefur farið fyrir sveittum trommuleik og tilburðamikilli spilamennsku Jónsa með fiðluboga og gítar heldur hefur listrænum myndum verið varpað upp á skjá. Nú voru það ljós í ólíkum litum sem sáu um hið myndræna og Elja sem setti lög sveitarinnar í fallegan og aðeins öðruvísi búning.

Georg Hólm umkringdur strengjaleikurum Elju.Mummi Lú

Komið var víða við í lagavalinu og svo til lag af hverri plötu spilað þó flest væru þau af Átta. Þau lög sem vöktu augljósustu viðbrögð gesta voru Fljótavík af Með suð í eyrum við spilum endalaust, Starálfur af Ágætis byrjun og svo Hoppípolla sem er líklega þekktasta lag sveitarinnar, af plötunni Takk

Strengjasveitin setti mestan svip sinn á lögin af Átta en kryddaði auðvitað langflest lög sveitarinnar. Samband Sigur Rósar við strengi hefur verið árangursríkt en strengjakvartettinn Amina ferðaðist með Sigur Rós út um allan heim í upphafi aldarinnar, þegar vinsældir sveitarinnar voru hvað mestar.

Jónsi opnaði myndlistarsýningu ásamt systkinum sínum í Seattle á vesturströnd Bandaríkjanna á dögunum. Myndlistin hefur skipað stóran sess í lífi söngvarans undanfarin ár en þessar vikurnar er tónlistin í aðalhlutverki.Mummi Lú

Það var sama hvaða lag bar upp á efnisskrá kvöldsins. Finna mátti sæluvímuna hríslast um salinn. Í lokuðum tónleikasal með Sigur Rós er heimurinn góður. Þar þarf ekki að hafa neinar áhyggjur. Í tvo og hálfan tíma ríkir friður á jörð og allt er fallegt. Þrettán ára sessunautur lokaði augunum um tíma og lognaðist út af á milli þess sem dynjandi lófatak vakti hann af værum svefni. Hann var ekki sá eini sem leyfði sér að loka augunum í sæti sínu í Eldborg.

Silfurrefurinn og tónskáldið Kjartan Sveinsson er kominn heim í Sigur Rós. Mummi Lú

Eins og við mátti búast risu tónleikagestir úr sætum þegar ljóst var að tónleikunum væri lokið. Kjartan, Georg og Jónsi mættu eins og við var að búast á sviðið og klöppuðu ekki minna fyrir tónleikagestum, eitthvað sem hefur verið einkennismerki Sigur Rósar frá upphafi. Jónsi kallaði af gleði, vúhú, og ekki stóð á vúhú-um úr salnum.

Jónsi hvílir fiðlubogann og spilar með hefðbundnum hætti á gítarinn. Mummi Lú

Strákarnir sem komust eftirminnilega á kortið í lok síðustu aldar með Ágætis byrjun hafa átt stórkostlegan feril sem ekki sér fyrir endann á. Ekki er að sjá að óvæntar skráveifur undanfarin ár hafi sett listsköpun strákanna úr jafnvægi. 

Endurkoma Kjartans, sem er tónlistarséníið í hópnum, hefur vafalítið verið sem ferskur vindur fyrir sveitina og var hann í miklum gír á hljómborðinu og píanóinu í gærkvöldi. Björgunarsveitarmaðurinn Georg spilaði af yfirvegun á bassann sem fyrr og Jónsi hleypti gestum inn í heim álfa og þess fyrir handan með söngnum einstaka og mælti ýmist af íslenskri tungu eða vonlensku.

Tónleikagestir voru margir hverjir enskumælandi en erfitt að henda reiður á hvort fólk hafi flogið til landsins vegna tónleikanna eða er búsett hér á landi. Fjöldi Íslendinga var sömuleiðis í salnum. Allir virtust í skýjunum með kvöldstundina.Mummi Lú

Hljómsveitin tekur sér verðskuldað jólafrí áður en haldið verður áfram með tónleikaferðalag. Japan og Ástralía eru meðal áfangastaða á vormánuðum og um haustið mætir sveitin til Evrópu þar sem meðal annars eru fyrirhugaðir fernir tónleikar í Royal Albert Hall í London í september og október. Það má reikna með því að uppselt verði á alla tónleika sveitarinnar eins og venjulega. Það hefur verið regla með einstaka undantekningu, þá helst á Íslandi.

Strákarnir í Sigur Rós nálgast nú fimmtugt hver af öðrum. Jónsi verður fimmtugur á næsta ári, Georg árið 2026 en ungstirnið Kjartan aðeins síðar eða árið 2028.Mummi Lú

Úti í heimi er Sigur Rós nefnilega risanafn og hefur sveitin sannarlega átt einhvern þátt í að koma Íslandi á kortið sem ferðamannalandi þótt ómögulegt sé að nefna einhverjar tölur í því samhengi. Þannig var um ítalskt par í Pollinum á Tálknafirði fyrir hálfum öðrum áratug sem nutu heita vatnsins í nærveru undirritaðs. Það mældist líklega á skjálftamælum þegar haka þeirra féll á bakkann við laugina vegna þess að blaðamaður hafði ekki enn séð heimildamyndina Heima. Hvernig mætti það vera? Það fylgdi reyndar sögunni að parið var frá Róm en hafði aldrei heimsótt frægt hringleikahús þar í borg. 

Lagalistann frá kvöldinu má sjá að neðan.


Fyrir hlé

  • Blóðberg
  • Ekki múkk
  • Fljótavík
  • 8
  • Von
  • Andvari
  • Starálfur
  • Dauðalogn
  • Varðeldur

Eftir hlé

  • () #1 – Vaka
  • () #3 – Samskeyti
  • Heysátan
  • Ylur
  • Skel
  • All Alright
  • () #5 – Álafoss
  • Sé lest
  • Hoppípolla
  • Avalon

Tengdar fréttir

Biden móment hjá Nick Cave í Eldborg

„Er einhver með lausa miða á Nick Cave?“ Svona færslur hafa vart farið fram hjá Facebook-notendum undanfarna daga. Vinsældir Ástralans hafa verið miklar á Íslandi undanfarna áratugi enda seldist upp á þrenna tónleika í Eldborg á nokkrum mínútum.

Tárin runnu niður kinnar

Ég sit við hringborð á veitingastað í Hörpu. Staðurinn heitir víst Hnoss. Ég var að læra það. Það er hlegið og grínast. En ég get ekki hugsað um neitt nema tónleikana sem ég var á. Mér finnst við vera að brjóta lög með því að kryfja ekki upplifunina sem við urðum öll vitni að. Við skálum einu sinni, fyrir mögnuðum tónleikum. Mér finnst ég verða að segja öllum frá. Komast í tölvu. Skrifa. Það er ekki á hverjum degi sem maður tárast á tónleikum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.