Enski boltinn

Bournemouth og Leicester komu til baka á ævin­týra­legan hátt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dango Ouattara fagnar sigurmarki sínu gegn Ipswich Town.
Dango Ouattara fagnar sigurmarki sínu gegn Ipswich Town. getty/Bradley Collyer

Mikil dramatík var í leikjum Ipswich Town og Bournemouth og Leicester City og Brighton í ensku úrvalsdeildinni í dag.

Flest benti til þess að Ipswich myndi vinna sinn annan sigur á tímabilinu þegar Bournemouth kom í heimsókn á Portman Road.

Conor Chaplin kom Ipswich yfir á 21. mínútu og þannig var staðan allt þar til þrjár mínútur voru eftir. Þá jafnaði Enes Ünal fyrir Bournemouth.

Gestirnir voru ekki hættir og þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Dango Ouattara sigurmark þeirra.

Þetta var þriðji sigur Bournemouth í röð en liðið er í 8. sæti deildarinnar með 24 stig.

Ipswich er hins vegar í 18. sætinu með níu stig, fjórum stigum frá öruggu sæti.

Vardy hetjan

Líkt og hjá Ipswich benti flest til þess að Brighton fengi öll þrjú stigin gegn Leicester, enda var liðið 0-2 yfir þegar fjórar mínútur voru til leiksloka. En Refirnir komu til baka og jöfnuðu í 2-2.

Tariq Lamptey kom Brighton yfir á 37. mínútu og þegar ellefu mínútur voru til leiksloka tvöfaldaði Yankuba Minteh forskot gestanna.

En strákarnir hans Ruuds van Nistelrooy gáfust ekki upp. Jamie Vardy minnkaði muninn í 1-2 á 86. mínútu og þegar mínúta var komin fram yfir venjulegan leiktíma lagði hann jöfnunarmark Leicester upp fyrir Bobby De Cordova-Reid.

Brighton er í 7. sæti deildarinnar með 24 stig en Leicester í því sextánda með fjórtán stig. Refirnir hafa náð í fjögur stig í tveimur leikjum síðan Van Nistelrooy tók við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×