Enski boltinn

Íþróttastjórinn hættur hjá United eftir fimm mánuði í starfi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Dan Ashworth er hættur hjá Manchester United.
Dan Ashworth er hættur hjá Manchester United. getty/Valerio Pennicino

Dan Ashworth er hættur sem íþróttastjóri Manchester United aðeins fimm mánuðum eftir að hann tók við starfinu.

The Athletic greinir frá þessum vendingum. Ashworth tók formlega við starfi íþróttastjóra United 1. júlí eftir að hafa gegnt sama starfi hjá Newcastle United og Brighton. United lagði mikið undir til að tryggja sér starfskrafta Ashworths og borgaði Newcastle væna summu fyrir hann.

Á könnu Ashworths voru meðal annars leikmannakaup og -sölur. United keypti fimm leikmenn í sumar fyrir um tvö hundruð milljónir punda: Matthijs de Ligt, Joshua Zirkzee, Manuel Ugarte, Noussair Mazraoui og Leny Yoro.

Ákvörðunin að Ashworth hætti var tekin á fundi með framkvæmdastjóranum Omar Berrada eftir 2-3 tap United fyrir Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni í gær. Samkvæmt The Athletic átti United frumkvæðið að því að slíta samstarfinu.

Ashworth átti að gegna stóru hlutverki í endurreisn United undir stjórn Sir Jims Ratcliffe en svo virðist sem samstarfið hafi ekki gengið upp. Félagið þarf því að finna nýjan mann í stöðu sem er tiltölulega ný hjá því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×