Enski boltinn

Amorim skoraði hjá Nuno í bikarúr­slita­leik

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ruben Amorim þótti fínasti leikmaður.
Ruben Amorim þótti fínasti leikmaður. getty/Stephen Pond

Fyrir fjórtán árum skoraði Ruben Amorim hjá Nuno Espírito Santo í bikarúrslitaleik í Portúgal. Á morgun mætast þeir sem stjórar í leik Manchester United og Nottingham Forest í ensku úrvalsdeildinni.

Amorim lék lengst af ferilsins með Benfica. Hann vann nokkra titla með liðinu, meðal annars deildabikarinn 2010.

Í úrslitaleiknum mætti Benfica Porto. Amorim kom Benfica á bragðið þegar hann skoraði með skoti sem Nuno, sem stóð í marki Porto, missti klaufalega undir sig. Benfica bætti síðan tveimur mörkum við og tryggði sér titilinn.

Nuno kom víða við á ferlinum og lék í tvígang með Porto. Hann var þá aðallega í hlutverki varamarkvarðar og spilaði fáa leiki með liðinu.

Nuno hefur gert góða hluti í þjálfun en Forest er þriðja enska liðið sem hann stýrir. Forest hefur komið mörgum á óvart í vetur en liðið er í 7. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, sex sætum ofar en United.

Amorim tók við United 11. nóvember eftir að hafa gert frábæra hluti með Sporting. Á miðvikudaginn tapaði liðið sínum fyrsta leik undir hans stjórn þegar það laut í lægra haldi fyrir Arsenal, 2-0.

Þrátt fyrir sex sætum muni á Forest og United í deildinni skilja aðeins þrjú stig liðin að. Með sigri á morgun jafna Rauðu djöflarnir því strákana hans Nunos að stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×