Körfubolti

Emil: Stundum þarf breytingar

Árni Jóhannsson skrifar
Emil Barja á hliðarlínunni ásamt einum af dómurum leiksins.
Emil Barja á hliðarlínunni ásamt einum af dómurum leiksins. Vísir/Diego

Emil Barja er í afleysingavinnu hjá meistaraflokki Hauka í körfuknattleik og það hefur haft góð áhrif á liðið sem vann Val í hörkuleik í 9. umferð Bónus deildar karla í körfubolta. Hann var mjög ánægður með sína menn en mun ekki vera í umræðunni um að taka starfið að sér.

Leikurinn var mjög skrýtinn til að vera hreinskilinn. Kaflaskiptur með eindæmum og Emil var spurður að því hvað hafi skilað Haukum langþráðum sigri.

„Við vorum bara „clutch“ í lokin. Það er það sem skiptir mestu máli. Þeir áttu tvo stóra spretti í upphafi leiks og upphafi seinni hálfleiks og við náðum bara að svara þeim báðum.“

Haukar hafa verið daprir í vetur, óheppnir og andlausir á köflu og því þarf að spyrja hvað hafi verið í gangi í kvöld hjá þeim.

„Stundum þarf bara einhverja smá breytingu. Ekki það að Maté hafi ekki gert vel með þetta lið. Hann gerði bara eins vel og hægt var. Stundum þarf bara að láta þjálfara fara og þá átta leikmenn sig á því að það er þeim að kenna að hann missti vinnuna. Það var dálítið þannig í kvöld. Þeir vildu sýna að þeir eru betri en taflan segir.“

Hvernig var fyrir Emil að koma inn í klefann í þessu ástandi sem Haukar hafa verið í og hvað þarf að gera til að halda þessu áfram?

„Það eru allir tilbúnir að gera betur og stíga aðeins upp. Ég hef fulla trú á því að þetta lið bjargi sér frá falli. Það þarf svo bara að halda áfram þessum leik. Það er margt sem má bæta, Taiwo skorar 36 stig og það sem við lögðum upp með fyrir hann var ekki að ganga. Við þurfum að halda áfram þessari baráttu og stemmningu og þá koma sigurleikirnir.“

Emil var spurður að því hvort hann vissi hver staðan væri á þjálfaraleitinni hjá Haukum og hvort hann kæmi til greina í starfið.

„Það er bara verið að leita og finna einhvern flottan til að taka við þessu. Ég var spurður en ég ætla að einbeita mér að kvennaliðinu í vetur. Ég verð með liðið líklega til áramóta og þá verður vonandi búið að finna einhvern til að taka við þessu.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×