Þetta kemur fram í viðtali við leikkonuna í fréttaskýringaþættinum 60 Minutes. Hún er þessa dagana að kynna bíómynd sína Lee þar sem hún fer með hlutverk hins magnaða stríðsfréttaljósmyndara Lee Miller. Í fréttaskýringaþættinum er sýnd klippa frá 1998 þar sem fréttamaður segir við Winslet að kjóllinn sem leikkonan sé í líti ekki nógu vel út og að hún hefði mátt vera í stærri kjól.
„Þetta er algjörlega ógeðfellt,“ segir Winslet í þættinum um þessi samskipti. „Hvernig manneskja þarftu að vera til þess að gera ungri leikkonu þetta sem er bara að átta sig á hlutnum?“
Lét hann heyra það
Leikkonan segir að á þessum tíma hafi svona samskipti viðgengist á hverjum einasta degi. Hún hafi aldrei tjáð sig opinberlega um þetta en hún hafi hinsvegar látið viðkomandi fréttamann heyra það í einrúmi. „Ég lét þau heyra það. Ég sagði: Ég vona að þetta ásæki ykkur. Þetta var frábær stund. Þetta var fyrir alla sem verða fyrir svona áreiti. Þetta var hrikalegt.“
Winslet segir að hún hafi lengi orðið fyrir svona framkomu, meðal annars af hálfu leiklistarkennara sem hafi sagt henni að sætta sig einfaldlega við það, að hún væri feit. Ef hún ætlaði sér að líta svona út yrði hún að sætta sig við hlutverk feitra kvenna.
Hún segir að hún sé löngu hætt að hlusta á álit annarra á útliti sínu og rifjar upp eitt atriði í kvikmyndinni Lee þar sem hún hafi verið beðin um að sitja bein í baki þannig að ekki sæist í fituna á maganum hennar. Það hafi henni þótt furðulegar leiðbeiningar og því virti hún þær alfarið að vettugi. „Starf mitt fólst í því að vera eins og Lee. Hún var ekki að lyfta lóðum og fara í pílates, hún borðaði osta, brauð og drakk vín án þess að spá í því, auðvitað væri hún ekki mössuð.“