Í tilkynningu Seðlabanka um viðskiptajöfnuð segir að halli á vöruskiptajöfnuði hafi verið 76 milljarðar króna en 140,5 milljarða króna afgangur hafi verið á þjónustujöfnuði. Frumþáttatekjur hafi skilað 6,6 milljarða króna halla og rekstrarframlög 12,2 milljarða króna halla.
Þetta kemur fram í nýbirtum upplýsingum á vef Seðlabanka Íslands sem sýna bráðabirgðayfirlit yfir greiðslujöfnuð við útlönd á þriðja ársfjórðungi 2024 og erlenda stöðu þjóðarbúsins í lok ársfjórðungsins.
Staðan jákvæð um 40,2 prósent af landsframleiðslu
Í lok ársfjórðungsins hafi hrein staða við útlönd verið jákvæð um 1.793 milljarða króna eða 40,2 prósent af vergri landsframleiðslu og hafi batnað um 130 milljarðar króna eða 2,9 prósent af vergri landsframleiðslu á fjórðungnum. Erlendar eignir þjóðarbúsins hafi numið 6.351 milljörðum króna í lok ársfjórðungsins en skuldir 4.558 milljörðum króna. Á fjórðungnum hafi staðan batnað um 39 milljarðar króna vegna fjármagnsviðskipta.
Erlendar eignir hafi aukist um 76 milljarða króna og skuldir um 37 milljarða króna.
Innlend hlutabréf hækkað talsvert meira
Gengis- og verðbreytingar hafi aukið virði eigna á ársfjórðungnum um 103 milljarða króna og minnkað virði skulda um 5 milljarða króna og því leitt til 109 milljarða króna betri hreinnar erlendrar stöðu. Gengi krónunnar hafi lækkað um tæp 0,4 prósent í fjórðungnum miðað við gengisskráningarvog.
Verð á erlendum verðbréfamörkuðum hafi hækkað um 6 prósent milli fjórðunga og verð á bréfum á innlendum hlutabréfamarkaði um 8,9 prósent.