ÍR tók á móti Val í Skógarselinu í kvöld í sínum fyrsta leik undir stjórn Borce Ilievski. Eftir að hafa tapað sjö fyrstu leikjum sínum í deildinni kom loksins sigur í síðasta leik. Annar sigurinn í röð staðreynd eftir dramatískar lokasekúndur.
Valsmenn byrjuðu leikinn ögn betur. Skotin ekki að detta hjá ÍR-ingum til að byrja með en þeir létu það ekki á sig fá og smelltu í 7-0 áhlaup eftir smá hikst í byrjun. Taiwo Badmus fór mikinn í liði Vals í byrjun og skoraði 15 af 22 stigum liðsins í fyrsta leikhluta, staðan 19-22 að honum loknum.
Það hægðist aðeins á Badmus í öðrum leikhluta en sóknarleikur heimamanna gekk betur og betur. Þeir keyrðu á Valsmenn á fullu gasi og virtust vera fullir sjálfstraust og leiddu í hálfleik 46-36.
Sjálfstraustið virtist svo hreinlega gufa upp í þriðja leikhluta og sóknarleikurinn sem flæddi svo vel í fyrri hálfleik var við frostmark en Valsmenn unnu leikhlutann 13-28 og leiddu því með fimm stigum fyrir lokaátökin, 59-64.
Heimamenn í ÍR sýndu aftur á móti mikinn karakter og unnu sig aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta og komust yfir. Lokamínúturnar urðu því æsispennandi en ótrúlegur þristur frá Kristni Pálssyni þegar tæpar þrjár mínútur lifðu leiks virtist ætla að verða rothögg fyrir heimamenn sem frusu sóknarlega næstu mínútuna.
Þeir tóku hins vegar síðustu mínútuna með trompi en Zarko Jukic kláraði leikinn á vítalínunni þegar tæp sekúnda var eftir. Valsmenn náðu skoti á loft og vildu fá villu en ekkert dæmt. Dramatískur sigur ÍR-inga staðreynd.
Atvik leiksins
Í stöðunni 82-83 gátu Valsmenn nánast gert út um leikinn með körfu með 35 sekúndur á klukkunni. En í staðinn varði Falko þriggjastigaskot frá Kristni Pálssyni og Kavas stal svo boltanum af Kára. Fullkomnar sekúndur hjá heimamönnum á ögurstundu.
Stjörnur og skúrkar
Jakob Falko fór fyrir sóknarleik ÍR-inga, skoraði 31 stig og bætti við sjö stoðsendingum. Matej Kavas kom næstur með 21 stig og níu fráköst.
Þá átti Björgvin Hafþór Ríkharðsson magnaða innkomu af bekknum í sínum fyrsta leik með ÍR. 16 stig og ellefu fráköst en hann hitti úr átta af ellefu skotum sínum í kvöld.
Hjá Val var Taiwo Badmus allt í öllu framan af leik og endaði með 30 stig og frábæra skotnýtingu. Kristinn Pálsson og Kári Jónsson settu nokkrar stórar körfur og enduðu með 16 og tólf stig og Kári bætti við sex stoðsendingum.
Dómararnir
Dómarar kvöldsins voru þeir Gunnlaugur Briem, Jón Þór Eyþórsson og Jón Svan Sverrisson, en Jón Svan var að dæma sinn fyrsta leik í úrvalsdeild karla. Hann komst vel frá því verkefni enda undir góðri leiðsögn frá tveimur reynsluboltum.
Það má þó segja að hann hafi fengið sannkallaða eldskírn í lokin þar sem tveir risastór atvik réðu úrslitum leiksins og dómararnir í eldlínunni í bæði skiptin.
Fyrst þegar brotið var á Kavas sem leiddi af sér sigurvítið og svo þegar ekkert var dæmt í lokin þegar Kristinn Pálsson fór í lokaskotið.
Séð úr blaðamannastúkunni voru þetta þó einfaldlega tveir hárréttir dómar (eða einn dómur strangt til tekið) þó svo að einhverjir stólar hafi fengið spark á bekknum hjá Valsmönnum.
Stemming og umgjörð
ÍR-ingar voru búnir að kveikja upp í grillinu þrátt fyrir fimbulkulda og verður að hrósa þeim fyrir það. Ghetto hooligans voru mættir og létu vel í sér heyra og það var einfaldlega frábær stemming í Skógarselinu í kvöld.
Viðtöl
Finnur Freyr: „Ef þú tekur ekki sénsana þína þá verður þér refsað“
Finnur Freyr Stefánsson var mættur aftur á bekkinn hjá Valsmönnum eftir tæplega tveggja mánaða fjarveru vegna veikinda. Það má segja að endurkoman hafi ekki beinlínis verið til að lyfta andanum fyrir hann eða Valsmenn.
„Vonbrigði, því við vorum oft í stöðum til að fara og ganga frá leiknum. En það bara þannig í þessum blessaða leik, og sérstaklega í þessari deild, að ef þú tekur ekki sénsana þína þá verður þér refsað og okkur var refsað í dag.“
Leikurinn í kvöld var sveiflukenndur og eins og Finnur kom inn á gripu Valsmenn aldrei sénsinn til að ganga frá leiknum, en það verður ekkert tekið frá ÍR-ingum sem börðust eins og ljón allan leikinn.
„Þeir börðust hart. Fara hart í sóknarfráköstin og eru að fara illa með okkur þar. Eru að skapa sér körfur upp úr engu. Körfur sem voru stórar allar leikinn fyrir þá. Mér fannst munurinn liggja þar. Þeir koma sér inn með því og svo á einhverjum tímapunkti hitta strákar úr skotum. Við fórum illa af ráði okkar. Vorum að spila oft á tíðum fínar varnir en kláruðum ekki í fráköstum og þá fer sem fer.“
Spekingunum hefur verið tíðrætt um að Valsmenn séu þunnt skipaðir en sem fyrr vildi Finnur lítið gera úr því að það vanti leikmenn í hópinn.
„Við vorum að skapa okkur fín skot fyrir skytturnar okkar en skotin fóru ekki niður. En varnarleikurinn var slakur, fáum á okkur 27 stig í öðrum leikhluta sem er alltof mikið. Vantar og ekki vantar, við erum með flotta leikmenn sem eru góðir í körfubolta og eigum bara að gera betur en þetta.“
Aðspurður um framhaldið og næstu skref fyrir Valsmenn lagði Finnur áherslu á að taka eitt skref í einu. Hann tók jafnframt fulla ábyrgð á gengi liðsins og þá stöðu sem liðið er komið í eftir fjarveru hans.
„Það er bara gaman að vera kominn aftur. Þetta var erfiður tími. Ég er náttúrulega búinn að setja strákana og liðið í mjög erfiða stöðu með fjarveru minni. Ég ber ábyrgð á gengi liðsins. Það er mér að kenna að liðið sé ekki að spila betur en þetta. Þótt að það sé alveg ástæða fyrir minni fjarveru þá er það samt sem áður á mína ábyrgð. Í dag geri ég heldur ekki nógu vel. Undirbý liðið greinilega ekki nógu vel og liðið er einfaldlega ekki á þeim stað sem það ætti að vera á þessum tímapunkti og það er mér að kenna.“
„Ég tek fulla ábyrgð á því. Það er mikil vinna framundan sem ég þarf að taka á mig. Ég þarf að hjálpa þessum strákum og þessu liði að komast á þann stað sem við viljum vera. Það þýðir ekkert að horfa of langt fram á veginn. Það er bara næsta æfing og næsti leikur og reyna að mjatla og reyna að verða betri með hverri vikunni. Undanfarin ár erum við kannski vanir að vera hinumegin en nú þurfum við bara að gera slíkt hið sama frá þessum endanum og átta okkur á því að það er ekki hægt að tala um neitt annað en næsta leik.“