Handbolti

Þórir ekki sáttur við nýtt hlut­verk Noru Mørk

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Nora Mørk er ein sigursælasta handboltakona sögunnar. Hún hefur unnið tíu gullverðlaun með norska landsliðinu, allt undir stjórn Þóris Hergeirssonar.
Nora Mørk er ein sigursælasta handboltakona sögunnar. Hún hefur unnið tíu gullverðlaun með norska landsliðinu, allt undir stjórn Þóris Hergeirssonar. vísir/getty

Sú ákvörðun Noru Mørk að vera álitsgjafi í sjónvarpi um Evrópumótið í handbolta mæltist ekki vel fyrir hjá Þóri Hergeirssyni, þjálfara norska kvennalandsliðsins.

Mørk er ólétt og verður ekki með á EM sem hefst í dag. Hún tók hins vegar að sér að vera sérfræðingur TV 2 og Viaplay um mótið ásamt jafnöldru sinni og stórvinkonu, Stine Oftedal Dahmke, sem lagði skóna á hilluna eftir Ólympíuleikana í París þar sem Noregur stóð uppi sem sigurvegari.

Þórir er ekkert sérstaklega hrifin af því að Mørk verði álitsgjafi á meðan mótinu stendur.

„Stine verður frábær fulltrúi handboltans með sína reynslu og þekkingu. Hún er hætt að spila. Ég vona að Nora verði meiri gestur sem er allt í lagi. Hún er enn landsliðskona,“ sagði Þórir við Nettavisen.

„Henni er velkomið að vera í myndveri og vera gestur, bæta við útsendingarnar og koma með góða punkta. Ég get ekki bannað henni það. En ég er ekki hrifinn af þessu. Ég hef verið skýr með það að leikmenn sem eru enn í landsliðinu ættu ekki að vera sérfræðingar einn mánuðinn og svo í landsliðinu annan mánuðinn.“

EM fer fram í Austurríki, Ungverjalandi og Sviss. Noregur á titil að verja á síðasta stórmótinu undir stjórn Þóris. Norðmenn eru í E-riðli ásamt Austurríkismönnum, Slóvenum og Slóvökum. Riðilinn er leikinn í Innsbruck líkt og riðill Íslendinga. Fyrsti leikur Noregs á EM er gegn Slóveníu í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×