Erlent

Íranir hóta því að koma sér upp kjarn­orku­vopnum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Seyed Abbas Araghchi er utanríkisráðherra Íran.
Seyed Abbas Araghchi er utanríkisráðherra Íran. Getty/Anadolu/Murat Gok

Seyed Abbas Araghchi, utanríkisráðherra Íran, segir hætt við því að stjórnvöld muni íhuga að einbeita sér að því að eignast kjarnorkuvopn ef Vesturlönd standi við þá hótun sína að taka aftur upp allsherjarþvinganir gegn landinu.

Araghchi segir Írani nú þegar búa yfir þekkingu og getu til að framleiða kjarnorkuvopn en að sem stendur væru þau ekki þáttur í öryggisstefnu landsins. Hann sagði einnig að stjórnvöld væru reiðubúin til að halda áfram að sjá Hezbollah í Líbanon fyrir vopnum.

Allsherjarviðskiptaþvingunum Sameinuðu þjóðanna var aflétt árið 2015, þegar Íranir gengu að samkomulagi um að takmarka kjarnorkuáætlun sína. 

Araghchi var útnefndur utanríkisráðherra af Masoud Pezeshkian forseta, sem hefur stefnt að því að byggja upp efnahagslífið með mættum samskiptum við Vesturlönd.

Utanríkisráðherrann er nú staddur í Lissabon, þar sem sendinefndir Íran og Evrópuríkja munu funda á morgun um mögulegar leiðir fram á við hvað varðar kjarnorkuáætlun Íran. 

Araghchi segist ekki bjartsýnn á árangur og að Evrópuríkin, aðallega Bretland, Frakkland og Þýskaland, virðist staðráðin í að ganga fram af fullri hörku. 

Stjórn Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA) samþykkti ályktun í síðustu viku sem lögð var fram af Evrópuríkjunum, þess efnis að Íranir hefðu ekki sýnt fullan samstarfsvilja þegar kæmi að eftirliti og væru að safna úranbirgðum sem hefðu engan friðsamlegan tilgang.

Guardian fjallar ítarlega um málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×