Erlent

For­seta­efni í Georgíu spilaði áður fyrir Manchester City

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Mikheil Kavelashvili t.v. lék einnig með Grasshoppers Zürich á löngum knattspyrnuferli.
Mikheil Kavelashvili t.v. lék einnig með Grasshoppers Zürich á löngum knattspyrnuferli. EPA

Stjórnarflokkur Georgíu, Georgíski draumurinn, hefur tilnefnt Mikheil Kavelashvili sem forsetaefni sitt í kosningum sem fara fram þar í landi 14. desember næstkomandi.

Georgíski draumurinn vann umdeildan sigur í þingkosningum 26. október en þeim hefur verið mótmælt af hörku og hefur flokkurinn verið sakaður um kosningasvindl. Stjórnarandstaðan hefur haldið því fram að Rússar hafi haft áhrif á niðurstöðurnar og sniðgengur nú þingið.

Kavelashvili tók sæti á georgíska þinginu árið 2016.AP

Salome Zourabichvili, fráfarandi forseti landsins, krefst ógildingar kosninganna og var ekki viðstödd setningu þingsins á mánudaginn frekar en þingmenn stjórnarandstöðunnar. Talið er að Kavelashvili komi til með að vinna stórsigur í forsetakosningunum framundan.

Mikheil Kavelashvili á sjálfur langan feril í knattspyrnu að baki sér og var meðal annars framherji í liði Manchester City um tíma. Hann lék einnig lengi í efstu deild svissnesks fótbolta. Hann var kjörinn á þing fyrir hönd Georgíska draumsins árið 2016. Hann hefur sakað Vesturlönd um að kynda undir skautun og öfgavæðingu í georgísku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×