Enski boltinn

Refirnir skemmtu sér í Köben eftir tapið sem kostaði þjálfarann starfið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Daninn Victor Kristiansen tók James Justin og aðra leikmenn Leicester með sér til heimalandsins eftir tap liðsins um helgina.
Daninn Victor Kristiansen tók James Justin og aðra leikmenn Leicester með sér til heimalandsins eftir tap liðsins um helgina. Michael Regan/Getty Images

Leikmenn Leicester City gerðu sér glaðan dag eftir tap gegn Chelsea í ensku úrvalsdeild karla í knattspyrnu um helgina. Skelltu þeir sér til Kaupmannahafnar, eitthvað sem liðið hefur gert áður, en að þessu sinni er ólíklegt að það beri sama árangur og síðast.

Á laugardaginn var tapaði Leicester 2-1 gegn Chelsea sem leiddi til þess að Steve Cooper var látinn taka poka sinn. Hann hafði aðeins tekið við liðinu síðasta sumar þegar Enzo Maresca tók við Chelsea. 

Það sem verra er, leikmenn liðsins sáust á djamminu í Kaupmannahöfn sama kvöld og þeir töpuðu gegn Chelsea. Þar sáust leikmenn liðsins halda á skilti sem stóð á „Enzo við söknum þín.“ Eflaust hafði það ekki áhrif á stjórn félagsins að losa Cooper en tímasetningin kómísk engu að síður.

Markvörðurinn Mads Hermansen og vinstri bakvörðurinn Victor Kristiansen voru báðir í byrjunarliði Refanna en þeir koma frá Danmörku. Þeir voru því svo sannarlega á heimavelli þegar liðið skellti sér til Köben en þetta er þó ekki í fyrsta sinn sem leikmenn Leicester gera sér glaðan dag í Kaupmannahöfn.

Skömmu fyrir jól árið 2015 skelltu leikmenn liðsins sér nefnilega til Kaupmannahafnar til að sletta úr klaufunum. Var þetta gert þegar liðið átti nokkurra daga frí áður en jólatörnin á Englandi fór á fullt.

Segja má að þetta hafi skilað jákvæðum árangri þá en vorið 2016 stóð Leicester uppi sem Englandsmeistari, eitthvað ótrúlegasta afrek í sögu ensku úrvalsdeildarinnar. Það eru litlar sem engar líkur á því að liðið endurtaki leikinn í vor en sem stendur væri félagið sátt með að halda stöðu sinni í deildinni.


Tengdar fréttir

Potter orðaður við Leicester á nýjan leik

Samkvæmt veðbönkum í Englandi er Graham Potter talinn líklegastur til að vera næsti þjálfari enska úrvalsdeildarliðsins Leicester City. Refirnir reyndu að ráða Potter í sumar en hann afþakkaði pent.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×