Enski boltinn

Þrí­eykið rennur allt út á samning næsta sumar

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Virgil van Dijk verður samningslaus næsta sumar.
Virgil van Dijk verður samningslaus næsta sumar. Getty Images/Carl Recine

Virgil van Dijk, Trent Alexander-Arnold og Mohamed Salah renna allir út á samning næsta sumar. 

Eftir að tryggja Liverpool sigur á nýliðum Southampton um liðna helgi sagðist Salah að hann hefði ekki enn fengið samningstilboð og væri líklega á förum frá félaginu.

Samkvæmt frétt BBC, breska ríkisútvarpsins, um málið hefur Liverpool ekki enn tjáð sig um ummæli leikmannsins.

Arne Slot tók við Liverpool í sumar og virðist handbragð hans hafa umturnað liðinu úr Bítlaborginni. Liðið hefur byrjað tímabilið frábærlega og er nær óstöðvandi um þessar mundir. 

Það stefnir hins vegar í að Slot þurfi að hefja endurbyggingu strax næsta sumar en ef marka má orð Salah virðist hann vera á leið frá félaginu. Hægri bakvörðurinn Trent hefur undanfarna mánuði verið orðaður við Evrópu- og Spánarmeistara Real Madríd. Virðist það vera meira en aðeins orðrómur þar sem Trent hefur ekki enn framlengt samning sinn í Bítlaborginni.

Hinn 33 ára gamli Van Dijk verður einnig samningslaus í sumar en hann hefur þó hafið viðræður við félagið. Það á hins vegar eftir að krota undir nýjan samning og því er Hollendingnum frjálst að semja við lið utan Englands strax í janúar. 

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×