Innlent

Refsing Jaguars þyngd veru­lega

Árni Sæberg skrifar
Landsréttur kvað upp dóm í máli Jaguars í dag.
Landsréttur kvað upp dóm í máli Jaguars í dag. Vísir/Vilhelm

Jaguar Do, tvítugur karlmaður, hefur verið dæmdur til fimm ára fangelsisvistar í Landsrétti. Hann var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps, með því að stinga mann sem seldi honum „lélegt kókaín“.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi Jaguar í tveggja ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás um miðjan mars. Hann var sakfelldur að hafa stungið mann með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár og skurð í nóvember í fyrra.

Ótrúverðugt að hann hefði passað hvernig hann stakk manninn

Héraðssaksóknari fór fram á að hann yrði dæmdur fyrir tilraun til manndráps en héraðsdómur taldi ekki sannað að ásetningur hans hefði staðið til þess að svipta brotaþola lífi. Landsréttur hefur nú snúið þeim dómi og dæmt Jaguar fyrir tilraun til manndráps.

Að mati Landsréttar var framburður Jaguars í héraði um að hann hefði gætt þess að stinga brotaþola þannig með hnífnum að hann hlyti ekki bana af talinn ótrúverðugur, auk þess sem talið var að lýsingar hans hvað þetta varðaði hefðu verið misvísandi. 

Þá var tekið undir það mat sérfræðilæknis sem bar vitni að Jaguar hefði ekki getað haft fulla stjórn á því hvar hann stakk brotaþola og hversu djúpt hnífslagið gengi. Var samkvæmt þessu talið að Jaguar hefði látið sér í léttu rúmi liggja hvort líftjón hlytist af verknaði hans. Hann hefði því gerst sekur um tilraun til manndráp

Hefur verið í gæsluvarðhaldi frá árásinni

Eftir að dómur héraðsdómur gekk krafðist Héraðssaksóknari þess að honum yrði gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómsuppsögu í Landsrétti. Héraðsdómur féllst ekki á kröfuna en Landsréttur taldi að fyrir lægi sterkur grunur um að Jaguar hafi framið afbrot sem varðað gæti tíu ára fangelsi en hann hafi játað að hafa stungið brotaþola margsinnis með hnífi.

Telja yrði brot hans þess eðlis að nauðsynlegt væri með tilliti til almannahagsmuna að hann sætti gæsluvarðhaldi meðan mál hans væri til meðferðar fyrir æðri dómi.

Því var fallist á gæsluvarðhaldskröfu Héraðssaksóknara og hann því sætt gæsluvarðhaldi síðan í nóvember í fyrra.


Tengdar fréttir

Tveggja ára fangelsi fyrir hnífaárás vegna lélegs kókaíns

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvítugan karlmann í tveggja ára fangelsi fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Manninum var gefið að sök að hafa stungið mann með þeim afleiðingum að hann hlaut stungusár og skurð í nóvember í fyrra. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×