Handbolti

Valskonur til Málaga en Haukar mæta liði frá Úkraínu

Sindri Sverrisson skrifar
Elín Rósa Magnúsdóttir og stöllur í Val virðast vera á leið til Spánar í janúar.
Elín Rósa Magnúsdóttir og stöllur í Val virðast vera á leið til Spánar í janúar. vísir/Anton

Íslands- og bikarmeistarar Vals mæta spænska liðinu Málaga Costa del Sol í 16-liða úrslitum EHF-keppninnar í handbolta kvenna. Haukakonur mæta hins vegar Galychanka Lviv frá Úkraínu.

Vegna stríðsins í Úkraínu hefur Galychanka Lviv verið að spila í pólsku úrvalsdeildinni, og allir leikir liðsins hingað til í EHF-keppninni hafa verið hafðir á útivelli. Liðið hefur reyndar í báðum umferðunum til þessa mætt liðum frá Aserbaísjan, og haft betur.

Haukar eru í 16-liða úrslitum eftir góða ferð til Króatíu um helgina þar sem liðið vann tvo eins marks sigra gegn Dalmatinka Polce.

Valskonur slógu út sænska liðið Kristianstad með því að vinna báða leiki liðanna, þann fyrri 27-24 á heimavelli og svo 29-24 í Svíþjóð um helgina.

Malaga sló út portúgalska liðið ADA de Sao Pedro do Sul í síðustu umferð með samtals 18 marka mun, eftir 17 marka sigur í heimaleik sínum, 32-15.

Leikirnir í 16-liða úrslitum eiga að fara fram helgarnar 11.-12. janúar og 18.-19. janúar, en hægt er að semja um að báðir leikir fari fram á sama stað í hverju einvígi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×