Keflavík mætti Hamri/Þór í Hveragerði í dag en liðin voru bæði með sex stig eftir fimm leiki í Bónus-deildinni á tímabilinu.
Í dag var hins vegar engin spurning hvoru megin sigurinn endaði. Keflavík var 55-38 yfir eftir fyrri hálfleikinn og vann að lokum stórsigur, lokatölur 103-75. Engin tölfræði hefur enn birst á vef KKÍ úr leiknum og því ekki hægt að greina frá atkvæðamestu leikmönnum liðanna.
Í Garðabænum tóku heimakonur í Stjörnunni á móti Njarðvík. Stjarnan leiddi 23-17 eftir fyrsta leikhluta en í öðrum leikhluta tóku Njarðvíkurkonur öll völd og leiddu í hálfleik 47-36.
Njarðvík hélt frumkvæðinu eftir hlé en í fjórða leikhluta náðu heimakonur að minnka muninn niður í eitt stig. Nær komust þær þó ekki og Njarðvík fagnaði 89-77 sigri.
Kolbrún María Ármannsdóttir og Denia Davis-Stewart skoruðu 24 stig fyrir Stjörnuna í dag og voru stigahæstar. Hjá Njarðvík skoraði Brittany Dinkins 29 stig og Emelie Hesseldal 19 stig.