Erlent

Þrýst á Scholz að víkja fyrir vin­sælasta stjórn­mála­manni landsins

Kjartan Kjartansson skrifar
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, (t.v.) mælist vinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Sumir sósíaldemókratar vilja að hann leysi Olaf Scholz kanslara (t.h.) af hólmi sem leiðtogi flokksins fyrir kosningar í febrúar.
Boris Pistorius, varnarmálaráðherra Þýskalands, (t.v.) mælist vinsælasti stjórnmálamaður landsins um þessar mundir. Sumir sósíaldemókratar vilja að hann leysi Olaf Scholz kanslara (t.h.) af hólmi sem leiðtogi flokksins fyrir kosningar í febrúar. Vísir/EPA

Flokkssystkini Olafs Scholz Þýskalandskanslara þrýsta nú hann að víkja fyrir varnarmálaráðherra sínum sem leiðtogi sósíaldemókrata fyrir þingkosningar í febrúar. Enginn kaslari Þýskalands hefur mælst eins óvinsæll í skoðanakönnunum og Scholz.

Útlit er fyrir að Þjóðverjar gangi til sambandsþingskosninga 23. febrúar eftir að ríkisstjórn Sósíaldemókrataflokks Scholz, Græningja og Frjálsra demókrata sprakk í síðustu viku. 

Scholz sækist eftir endurkjöri sem leiðtogi sósíaldemókrata og að leiða þá í kosningunum þrátt fyrir að flokkurinn rísi ekki hátt í skoðanakönnunum þessa dagana. Reuters-fréttastofan segir að hann njóti stuðnings áhrifamanna í flokknum til þess.

Nokkrir leiðtogar flokksins í einstökum sambandslöndum Þýskalands hafa síðustu daga hvatt Scholz til þess að fara að fordæmi Joes Biden Bandaríkjaforseta og stíga til hliðar sem frambjóðandi flokks síns. Í staðinn vilja þeir að Boris Pistorius, varnarmálaráðherra, taki við kyndlinum. 

Pistorius nýtur mestrar hylli þýskra stjórnmálamanna í könnunum þessi misserin. Scholz var í næstsíðasta sæti á lista yfir tuttugu vinsælustu stjórnmálamenn landsins samkvæmt nýlegri könnun. Þá sagðist meirihluti stuðningsfólks sósíaldemókrata vilja fá Pistorius til forystu í annarri könnun.

Endanleg ákvörðun um forystu sósíaldemókrata verður að líkindum tekin á flokksþingi Sósíaldemókrataflokksins í janúar.

Ríkisstjórn Scholz splundraðist eftir að hann rak Christian Lindner, fjármálaráðherra úr Frjálsum demókrötum, vegna ágreinings um efnahagsstefnu stjórnarinnar.


Tengdar fréttir

Ganga til kosninga í febrúar

Þjóðverjar munu ganga til kosninga til sambandsþings þann 23. febrúar næstkomandi, eftir að atkvæðagreiðsla um vantrauststillögu gegn ríkisstjórn Olaf Scholz, kanslara, fer fram í desember. Sú tillaga verður að öllum líkindum samþykkt.

Ríkissjórn Scholz er sprungin

Ríkissjórn Olaf Scholz Þýskalandskanslara er sprungin eftir að einn þriggja stjórnarflokkanna ákvað að segja skilið við ríkisstjórnina. Það gerðist í kjölfar þess að Scholz ákvað að reka fjármálaráðherrann Christian Lindner, leiðtoga Frjálslynda lýðræðisflokksins, sem átti aðild að stjórninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×