Golf

Golfstjarnan mætti á upp svið með Trump

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryson DeChambeau og Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, eru góðir vinir.
Bryson DeChambeau og Donald Trump, verðandi Bandaríkjaforseti, eru góðir vinir. Getty/Jonathan Ferrey

Bandaríski kylfingurinn Bryson DeChambeau var á svæðinu í Flórída í nótt þegar Donald Trump fagnaði sigri í forsetakosningunum í Bandaríkjunum.

DeChambeau er einn besti kylfingur heims og vann Opna bandaríska meistaramótið í golfi á þessu ári. Það var í annað skipið sem hann vann risamót en hinn sigurinn kom líka á Opna bandaríska mótinu á kosningaári eða árið 2020.

Kylfingurinn var líka mikið í fréttunum á sínum tíma þegar DeChambeau hætti á bandarísku mótaröðinni, elti peningana til Sádi Arabíu og samdi við LIV.

DeChambeau var mættur á sviðið með Trump í nótt og var þá með svarta Maga-húfu með orðunum „Make America great again“ eða „Gerum Bandaríkin frábær á ný". Trump kallaði hann upp á svið.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem golfstjarnan lýsir yfir stuðningi sínum við Trump.

Í sumar setti DeChambeau inn myndband á Youtube síðu sína þar sem hann sást spila golf með Trump. Þrettán milljónir manna hafa horft á það.

Eins og staðan er núna þá er DeChambeau níundi á heimslistanum í golfi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×