Fótbolti

Slot lofar Xabi Alonso fyrir leik þeirra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arne Slot og Xabi Alonso mætast með lið sín á Anfield í Meistaradeildinni í kvöld.
Arne Slot og Xabi Alonso mætast með lið sín á Anfield í Meistaradeildinni í kvöld. Getty/ Jan Kruger/Jörg Schüler

Liverpool tekur á móti Bayer Leverkusen í Meistaradeildinni í kvöld og það munu örugglega fáir stuðningsmenn Liverpool missa af þessum leik.

Xabi Alonso stýrir liði Leverkusen en hann var mikið orðaður við það að verða eftirmaður Jürgen Klopp hjá Liverpool. Alonso hélt áfram hjá Leverkusen og Liverpool réð í staðinn Hollendinginn Arne Slot.

Leverkusen tapaði ekki leik á síðasta tímabili og vann sinn fyrsta þýska meistaratitil frá upphafi.

Það hefur ekki gengið alveg eins vel í ár og í fyrra hjá lærisveinum Alonso en Slot hefur aftur á móti byrjað frábærlega með Liverpool.

Alonso fékk hrós frá kollega sínum á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Það er erfitt að segja nákvæmlega hvað gerir hann að svo sérstökum stjóra þegar þú vinnur ekki með honum daglega en hann er sérstakur, það er á hreinu,“ sagði Slot.

„Liðið var í hópi neðstu liðanna þegar hann tók við, þeir eyddu ekki miklum pening og notuðu nánast sömu leikmenn. Þetta lið tapaði bara einum leik og sá var í úrslitaleik Evrópudeildarinnar,“ sagði Slot.

„Það er eins og áður sagði erfitt að segja hvað gerir hann svona góðan en eitt af því er örugglega það að hafa spilað fyrir svo marga ótrúlega stjóra á sínum leikmannaferli. Hann þekkir líka og skilur hvernig leikmönnum líður á ákveðnum tímapunktum,“ sagði Slot.

„Besta leiðin til að komast að því hvað gerir hann svo sérstakan væri að spyrja leikmennina sem hafa spilað fyrir hann,“ sagði Slot.

Leikur Liverpool og Bayer Leverkusen hefst klukkan 20.00 í kvöld en útsendingin á Vodafone Sport hefst klukakn 19.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×