Innlent

Matarsmakk á fjölmenningarhátíð í Aratungu

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Hátíðin fer fram sunnudaginn 3. nóvember frá klukkan 14:00 til 17:00 þar sem allir eru velkomnir að mæta.
Hátíðin fer fram sunnudaginn 3. nóvember frá klukkan 14:00 til 17:00 þar sem allir eru velkomnir að mæta. Aðsend

Það stendur mikið til í félagsheimilinu Aratungu í Bláskógabyggð á morgun sunnudag þegar fjölmenningarhátíð uppsveita Árnessýslu verður haldin. Þar munu fulltrúar sautján þjóðlanda, sem búa á svæðinu kynna menningu síns lands og bjóða upp á matarsmakk.

Í uppsveitum Árnessýslu býr fjölbreyttur hópur fólks, Íslendingar og erlendir íbúar frá löndum eins og Tékklandi, Portúgal, Búlgaríu, Noregi, Eþíópíu, Póllandi og Chile svo einhver lönd séu nefnd. Á hátíðinni í Aratungu, sem stendur frá klukkan 14:00 til 17:00 verður gleðin í fyrirrúmi þar sem fulltrúar landanna kynna menningu síns lands og bjóða upp á eitthvað gott í gogginn frá sínu heimalandi.

Lína Björg Tryggvadóttir byggðþróunarfulltrúi uppsveita Árnessýslu veit allt um hátíð morgundagsins.

„Fólk mun kynna landið sitt og við munum spila tónlist frá ýmsum löndum og við verðum með borð þar sem fólk mun kynna mat og list og hvað þessi menning og þjóð stendur fyrir. Svo erum við líka að kynna klúbba og allt sem er að gerast í sveitinni, klúbba sem eru í uppsveitunum því við viljum kynna fyrir fólkinu, sem eru erlendir íbúar sveitarfélaganna hvað sé að gerast og hvað er hægt að gera í uppsveitunum,“ segir Lína.

Lína Björg Tryggvadóttir byggðþróunarfulltrúi uppsveita Árnessýslu, sem hefur verið allt í öllu varðandi skipulagninu fjölmenningarhátíðarinnar í Aratungu.Magnús Hlynur Hreiðarsson

Lína Björg segist vera mjög stolt af framtaki morgundagsins og segist vera mjög spennt fyrir deginum.

Hvernig líður þessu fólki í uppsveitum Árnessýslu, er það ánægt eða hvað?

„Ég held nefnilega að fólk sé almennt ánægt og ég held að við fáum bara að sjá gleði og glaum á morgun og sjá hversu ánægt það er og ég held það sé líka ánægt að fá aðeins að blómstra og sína hvað það hefur upp á að bjóða,“ segir Lína um leið og hún hvetur fólk til að fjölmenna í Aratungu sunnudaginn 3. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×