Fótbolti

Fyrr­verandi fót­bolta­maður á meðal hinna látnu

Sindri Sverrisson skrifar
Flóðin á Spáni hafa valdið mikilli eyðileggingu og orðið að minnsta kosti 158 manns að bana.
Flóðin á Spáni hafa valdið mikilli eyðileggingu og orðið að minnsta kosti 158 manns að bana. Getty/David Ramos

Að minnsta kosti 158 manns hafa látist vegna hamfaraflóðanna á Spáni og þar á meðal er fyrrverandi fótboltamaðurinn Jose Castillejo.

Flóðin hafa bitnað verst á Valencia-héraðinu á austurströnd Spánar og óttast yfirvöld að tala látinna eigi enn eftir að hækka. Í gær voru rúmlega 1200 manns við björgunarstörf á svæðinu og voru drónar nýttir til leitar. Pedro Sanchez forsætisráðherra segir að mesta áherslan sé nú lögð á að finna fólk á lífið, hreinsunarstarfið verði að bíða á meðan.

Castillejo er á meðal hinna látnu en hann var aðeins 28 ára gamall. Hann var í unglingaakademíu Valencia sem minnist hans í tilkynningu.

„Við hörmum andlát Jose Castillejo en hann varð fórnarlamb DANA-hörmunganna. Hann var leikmaður akademíu félagsins og hefur spilað fyrir nokkur lið í Valencia-héraðinu. Hvíl í friði.“

Castillejo var einnig leikmaður Eldense, Paterna, CD Bunol, Recam Colon og Torre Levante.

Bikarleikjum var frestað á Spáni í vikunni vegna hamfaranna og spænska knattspyrnusambandið hefur einnig tilkynnt að öllum leikjum í Valencia-héraði, sem fara áttu fram um helgina, verði frestað. Þar á meðal er leikur Valencia og Real Madrid en einnig leikur Villarreal og Rayo Vallecano, og leikur Levante og Malaga í næstefstu deild, sem og leikur Levante og Real Madrid í efstu deild kvenna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×