Enski boltinn

Jürgen Klopp enn fúll út í Sergio Ramos

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos sést hér snúa niður Mohamed Salah í úrslitaleiknum 2018 en Jürgen Klopp er enn ósáttur við hann.
Sergio Ramos sést hér snúa niður Mohamed Salah í úrslitaleiknum 2018 en Jürgen Klopp er enn ósáttur við hann. Getty/Robbie Jay Barratt

Jürgen Klopp, fyrrum knattspyrnustjóri Liverpool, er enn fúll yfir tapinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar árið 2018 og þá sérstaklega út í einn mann.

Real Madrid vann þá 3-1 sigur á Liverpool í Kænugarði í Úkraínu en ein stærsta fréttin frá leiknum var þegar Mohamed Salah fór snemma meiddur af velli eftir að Sergio Ramos sneri hann niður.

Salah fór grátandi af velli með slæm axlarmeiðsli og Liverpool liðið átti litla möguleika eftir það.

Klopp ræddi þennan úrslitaleik í hlaðvarpsviðtali við Toni Kroos. Kroos var í liði Real Madrid sem fagnaði þarna sigri.

Ramos var ekki hættur því hann lenti líka í samstuði við Liverpool markvörðinn Loris Karius. Karius er talinn hafa fengið heilahristing. Markvörðurinn hélt samt áfram og gerði tvö skelfileg mistök seinna í leiknum.

„Er herra Ramos virkilega góður gæi?“ spurði Jürgen Klopp. ESPN segir frá.

„Hann er ekki uppáhaldsleikmaðurinn minn. Þetta brot hans var svo gróft,“ sagði Klopp.

„Ég skildi aldrei þennan hugsunarhátt hans. Ég hef aldrei verið með slíka leikmenn og þegar ég fékk slíka leikmenn þá sá ég til þess að þeir fóru í burtu aftur,“ sagði Klopp.

Kroos kom Ramos til varnar og sagði hann vera mjög góðan liðsfélaga en Klopp bætti við:

„Hann er kannski ekki minn uppáhaldsleikmaður en það skiptir engu máli,“ sagði Klopp.

„Ég hef alltaf litið á þetta þannig að mínir miðverðir voru alltaf það góðir að þeir þurftu ekki að standa í svona ruddaskap,“ sagði Klopp.

Liverpool vann Meistaradeildina árið eftir en tapaði einnig úrslitaleik á móti Real Madrid árið 2022.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×