Skoðun

Hernaðurinn gegn skólunum

Ragnar Þór Pétursson skrifar

Á tyllidögum kallar Viðskiptaráð sig „bakhjarl menntunar“ á Íslandi. Það hreykir sér af eigin ábyrgðarkennd og rembist við að skapa þá mynd af sér að þar fari bæði framsýnt og víðsýnt afl um menntun. Þessi ímynd hefur laskast nokkuð síðasta árið eftir að ráðið og pennavinur þess, Morgunblaðið, hafa staðið fyrir einhverri stærstu árásarherferð sem skólakerfið hefur orðið fyrir í sögu lýðveldisins. Fimmtán sinnum í mánuði, í tæplega ár, hefur verið vegið að menntakerfinu á prenti og engu hefur verið eirt.

Í þessum árásum sínum hefur Viðskiptaráð stundum minnt á nemanda sem mætir ólesinn í próf og reynir svo að kjafta sig út úr vandanum. Eftir að hafa vikum saman ráðist á nýtt námsmat virðist einhver hafa sest niður með forkólfum ráðsins og útskýrt að það væri ekki verið að leggja niður samræmd próf. Eftir það gaf ráðið út áréttingu og þóttist aldrei hafa verið að berjast fyrir endurupptöku samræmds prófs (sem það hafði barasta víst verið að gera). Það breytti um stefnu og barðist nú fyrir því að ákveðin próf í íslensku og stærðfræði yrðu gerð að skyldu. Fagnaði svo sigri þegar það varð raunin og taldi sig hafa bjargað menntakerfinu í horn.

Hefði Viðskiptaráð haft fyrir því að lesa heima, áður en það stökk grenjandi af stað í áróðursherferð sína, hefði það getað séð að fyrsta aðgerðin, sem breytingar á samræmdu námsmati áttu að hafa í för með sér, var þessi:

„Þróað verði heildstætt safn matstækja í mörgum námsgreinum undir yfirheitinu matsferill sem komi í stað samræmdra könnunarprófa eins og þau eru í núverandi mynd. Áhersla verði á fjölbreytt, stutt, hnitmiðuð, rafræn próf og verkefni og valfrelsi skóla til að nýta sér þau, með þeim takmörkunum þó að skólum beri skylda til að leggja fyrir tiltekin próf í íslensku og stærðfræði.“

Það er ótrúlega dýrt fyrir samfélagið að vera orðið að æfingarvegi fyrir hægri sinnaða hugveitu sem virðist bara kunna á bensíngjöfina en ekki stýrið.

Eftir gegndarlausar loftárásir á skóla og kennara kom framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs loks fram og sagði, nánast feimnislega, að kannski væri einkarekstur lausn á vanda menntakerfisins. Síðan var honum skipt út af í sókninni fyrir ráðherra Sjálfstæðisflokksins sem spann næsta þráð: Að það væri ekki kennaranna sök að skólamál væru í ólestri, laga þyrfti kerfið sjálft.

Það er ágætt að hafa sumt á hreinu þegar kemur að hinu gallaða kerfi.

Þegar Viðskiptaráð rakti hnignunarsögu íslensks skólakerfis aftur til 1998 steingleymdi það að geta þess að 60% þess tíma hefur Sjálfstæðisflokkurinn stýrt menntamálum. Framsókn hefur haldið um stjórnartaumana 25% tímans og í fjögur ár var það VG sem fór með menntamál.

Viðskiptaráð hefur heldur ekki getið þess sérstaklega að þegar núverandi stefna í læsismálum var meitluð í stein var það gert af ráðherra sem fylgdi ráðgjöf Viðskiptaráðs í einu og öllu. Ráðherra sem taldi að lausn á minnkandi læsi fælist í því að fá Ingó veðurguð til að vísitera sveitarstjórnir hringinn í kringum Ísland og taka í kjölfarið upp miðlæg hraðlestrarpróf hjá hverju einasta grunnskólabarni.

Þaðan af síður hefur Viðskiptaráð getið þess að strax árið eftir að núverandi áherslum í lestrarkennslu var komið á mældist greinileg aukin, og síðan viðvarandi, hnignun á lestraráhuga barna í landinu.

Aldrei virðist Viðskiptaráði hafa komið í hug að það gæti jafnvel gert íslenskunámi meira gagn á eigin heimavelli, í viðskiptalífinu, þar sem staðan er nú sú að aðgengi ungra barna að íslensku efni hefur aldrei verið minna. Í gróðaskyni hafa bæði kvikmyndir og hljóðbækur verið múraðar innan gjaldveggja með þeim afleiðingum að við erum farin að mæla brenglun á málhljóðum yngstu barnanna, þar sem enskur framburður hefur leyst af hólmi íslenskan.

Og lítinn áhuga virðist Viðskiptaráð hafa á að skoða sína eigin, flekkóttu sögu af spámennsku um íslenskt skólakerfi og áhrif einkarekstrar. Ég hef ekki orðið var við einlæga naflaskoðun eftir að Viðskiptaráð lýsti því kinnroðalaust yfir hve mikla yfirburði Menntaskólinn Hraðbraut sýndi gagnvart hinu opinbera framhaldsskólakerfi þrátt fyrir að skömmu seinna kæmi í ljós að skólinn hefði alls ekki náð máli fag- eða rekstrarlega og orðið helst frægur fyrir það að dæla peningum í vasa eigenda sinna þrátt fyrir að standa ekki undir því fjárhagslega.

Ég hef heldur ekki orðið var við neina einlæga tilraun til þess hjá Viðskiptaráði að vanda sig í umræðunni um menntamál núna. Ráðið hefur enn ekki brugðist við neinni af þeirri málefnalegu gagnrýni sem það hefur fengið á sig, þrátt fyrir að hafa ítrekað orðið uppvíst af því að senda frá sér rangan og villandi málflutning. Það virðist meira að segja ekki hafa séð neitt athugavert við það að bera saman veikindahlutfall starfsmanna í skólum og á almennum markaði árið 2020. Árið sem við héldum grunnskólum opnum í heimsfaraldri (meðan þeir voru lokaðir í flestum öðrum löndum) og fyrirtækin tóku upp fjarvinnu. Það vantar meira en vandvirkni í fólk sem notar svoleiðis tölfræði gegn öðru fólki. Þetta er álíka smekklegt og að grjótið í húsgrunnunum við Borgartún gagnrýndi grjótið í brimgarðinum við Sæbraut fyrir að vera of blautt.

Síðasta ár hefur fátt nýtt leitt í ljós um skólakerfið. Það hefur hins vegar enn á ný staðfest óeðlileg og djúp tengsl viðskiptalífs, stjórnmála og fjölmiðla. Þegar Menntaskólinn Hraðbraut var afhjúpaður sem sú hola gróðrarstía sem hann var fór viðkomandi ráðherra í það að gefa eftir gríðarlega fjármuni sem skattgreiðendur áttu heimtingu á. Þegar Viðskiptaráð ákvað um daginn að berja á kennurum fyrir að vera of næmir fyrir kórónuveirunni tók „blaðamaður“ Morgunblaðsins við „fréttinni“ án þess svo mikið sem að hugleiða eitt augnablik innihaldið áður en því var dælt út á fyrirfram gefnum tíma sem innsendarinn hafði fyrirskipað sjálfur.

Árásarherferðin hefur einn, og aðeins einn, tilgang. Menntakerfið er orðið eitt af fáum kerfum sem eigendur viðskiptaráðs hafa ekki fengið að fara ránshendi um. Það á eftir að arðvæða það. Nú, þegar fótalúið fólk í smábæjum úti á landi, getur múrað upp í bréfalúgurnar því Pósturinn er hættur að bera út póst og barn getur ekki mætt með afmælispeninginn sinn í banka til að leggja inn hjá gjaldkera – þá er komið að skólakerfinu.

Þegar ráðherra Sjálfstæðisflokks segir hughreystandi við kennara að ekki sé við þá að sakast er ósköp einfaldlega verið að skipa kennurum, sem veitt hafa árásum á skólakerfið eðlilegt viðnám, að stíga til hliðar svo pláss verði fyrir jarðýturnar.

Skólakerfi sem á svona bakhjarla þarf ekki óvini.

Sorglegast af öllu er, að íslenska skólakerfið, fjölmiðlar, stjórnmál og viðskiptalíf þurfa ekki að vera í neinu stríði. Þegar rætt er af viti um skólamál kemur yfirleitt hratt í ljós að markmið okkar allra er hið sama. Þegar atvinnulifið kemur fram með lausnir, sem að gagni verða, eða opnar dyr sínar fyrir skólunum – er það regla, en ekki undantekning, að skólakerfið tekur því fagnandi. Við getum nefnt starfstengt nám, GERT-verkefnið, forritara framtíðarinnar og ótal fleiri verkefni sem dæmi. Alþingi unga fólksins og heimsóknir til Alþingis eru fastir liður í starfi margra skóla. Stjórnmálamenn mæta í skóla til að ræða við nemendur og starfsfólk og er ævinlega vel tekið. Engin stétt fólks á landinu er gagnrýnni á eigin störf en kennarar og engin stétt leggur meiri áherslu á eigin starfsþróun.

Það eru ótal dyr að umbótum í íslensku skólakerfi og ótal hugir sem eru opnir fyrir góðum hugmyndum.

Þess vegna er óskiljanlegt að lægsti samnefnari íslenskrar hægrimennsku, samansaumaði óskapnaðurinn sem samkrull Viðskiptaráðs, fjölmiðlunar og stjórnmálanna er, skuli hafa óáreittur fengið að standa í loftárásum á menntakerfið mánuðum saman. Í þessum árásum hefur fátt verið sprengt annað en brýr sem hefðu getað verið nýttar til einlægs samstarfs, samvinnu og umbóta.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Sjá meira


×