Selma Sól Magnúsdóttir skoraði mark Íslands á 56. mínútu. Hún fékk þá boltann hægra megin fyrir utan vítateig Bandaríkjanna, lék á varnarmann og skoraði með frábæru vinstri fótar skoti í fjærhornið.
What a strike from Magnúsdóttir to level it up for Iceland 🚀
— B/R Football (@brfootball) October 25, 2024
Watch USA vs. Iceland live on TBS and Max 📺 pic.twitter.com/9qFW9tTk6C
Selma jafnaði metin í 1-1 en undir lokin tryggði bandaríska liðið sér sigurinn með mörkum varamannanna Jaedyns Shaw og Sophiu Smith. Lokatölur 3-1, bandarísku Ólympíumeisturunum í vil.
„Það er margt jákvætt hægt að taka út úr leiknum. Við stóðum vel í þeim en urðum svo helvíti þreyttar seinustu tíu mínúturnar; bara óvanar. En mér fannst við standa vel í þeim og það er hægt að taka margt jákvætt út úr leiknum,“ sagði Selma í viðtali á miðlum KSÍ eftir leikinn í Austin, Texas í nótt.
„Ég held við séum nokkuð sáttar. Auðvitað vill maður alltaf vinna og allt það en þetta er klárlega eitthvað til að byggja ofan á.“
Aðspurð út í markið sem hún skoraði sagði Selma að það hefði verið góð tilfinning að sjá boltann í netinu.
„Það var langt síðan ég skoraði með vinstri, hvað þá fyrir utan teig,“ sagði Selma í léttum dúr. „Það var mjög gott að skora og ná að standa aðeins í þeim í leiknum.“
🎙️#viðerumísland pic.twitter.com/VgQpL4F43p
— Knattspyrnusambandið (@footballiceland) October 25, 2024
Það er skammt stórra högga milli hjá íslenska liðinu sem ferðast núna til Nashville, Tennessee þar sem það mætir Bandaríkjunum öðru sinni á sunnudagskvöldið.
„Það er spennandi. Það er gaman að fá að spila á móti þeim og bera okkur saman við þær. Ég er bara spennt að spila á móti þeim á sunnudaginn og gera ennþá betur,“ sagði Selma.
Selma hefur nú skorað fimm mörk í 42 landsleikjum. Tvö þeirra hafa komið í Bandaríkjunum en hún skoraði í 2-1 sigri á Tékklandi á SheBelieves Cup fyrir tveimur árum.