Upp­gjörið: Haukar - Njarð­vík 57-79 | Botnlið Njarð­víkur vann topp­lið Hauka

Siggeir Ævarsson skrifar
Emilie Hessedal lét vel til sín taka í kvöld
Emilie Hessedal lét vel til sín taka í kvöld Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Taplausir Haukar tóku á móti Njarðvík í Ólafssal í Bónus-deild kvenna í kvöld en Njarðvíkingar höfðu aðeins landað einum sigri í þremur leikjum fyrir leik kvöldsins.

Haukar byrjuðu leikinn af miklum krafti og virtust ætla að strauja Njarðvíkinga flata strax í byrjun. Staðan 9-2 í byrjun og Njarðvíkingar að gera mörg klaufamistök. Þær virkuðu stressaðar og jafnvel hræddar en eftir leikhlé hjá Einari Árna kom allt annað lið inn á völlinn.

Ena Viso í hamVísir/Pawel Cieslikiewicz

Njarðvíkingar voru fljótlega komnir 11-12 yfir og eftir það skiptust liðin á að leiða með örfáum stigum fram að hálfleik en þá var jafnt á öllum tölum, 36-36.

Lore Devos var eini leikmaður Hauka með einhverju lífsmarki sóknarlegaVísir/Pawel Cieslikiewicz

Seinni hálfleikur hófst á skotsýningu frá Njarðvíkingum, sem settu fimm þrista gegn einum frá Haukum og staðan allt í einu orðin 39-51. Njarðvíkingar unnu leikhlutann að lokum með miklum yfirburðum, 26-9 og leiddu með 17 stigum fyrir lokaátökin, 45-62.

Haukar voru á þessum tímapunkti farnir að virka ansi vonlitlir um sigur. Skotin ekki góð, handahófskennd og leikmenn mikið að flýta sér. Fjórði leikhlutinn varð svo afar tíðindalítill. Allur vindur úr Haukum og endurkoma aldrei í kortunum.

Tinna Guðrún var langt frá sínu besta í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Öruggar og sanngjarn sigur Njarðvíkinga í Ólafssal niðurstaðan í kvöld, lokatölur 57-79.

Atvik leiksins

Þristasýningin í upphafi seinni hálfleiksins sneri leiknum algjörlega á sveif með Njarðvíkingum og slökkti hreinlega í Haukum. Leikurinn leystist algjörlega upp í kjölfarið og allur vindur úr Haukum sem gerðu aldrei alvöru atlögu að sigrinum eftir það.

Stjörnur og skúrkar

Brittany Dinkins bar höfuð og herðar yfir aðra leikmenn í kvöld. Hún lét þristunum rigna og skoraði nánast að vild á köflum. 30 stig frá henni, ellefu stig og sex stoðsendingar. Hún tapaði reyndar átta boltum en látum það liggja á milli hluta.

Brittany Dinksins var frábær í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Þá var Emilie Hesseldal afar drjúg fyrir Njarðvíkinga, með 15 stig, 16 fráköst og sjö stoðsendingar.

Hjá Haukum var lítið að frétta sóknarlega, ef frá er talin frammistaða Lore Devos, sem skoraði 20 stig og tók tíu fráköst.

Skúrkur kvöldsins hlýtur að vera hinn atvinnumaðurinn í liði Hauka, Diamond Battles, sem skoraði aðeins fjögur stig

Diamond Alexis Battles var heillum horfin í kvöldVísir/Pawel Cieslikiewicz

Dómararnir

Dómarar kvöldsins voru þeir Jón Þór Eyþórsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson og Bjarni Rúnar Lárusson. Leikurinn var ansi fast leikinn í kvöld en línan þótti mér skýr og ekkert við þeirra störf að athuga að mínu mati.

Svo er bara spurning hvaða einkunn Aðalsteinn Hjartarson gefur þeim, en hann sat í blaðamannastúkunni í kvöld og rýndi í leikinn við hlið blaðamanns.

Stemming og umgjörð

Umgjörðin alltaf til fyrirmyndar í Ólafssal en það vantaði aðeins upp á stemminguna að þessu sinni. Það var ekki þétt setið í stúkunni og það heyrðist aðallega tuð þegar eitthvað heyrðist í stuðningsfólki Hauka. Minna svona takk.

Viðtöl

Emil Barja: „Það bara fór ekkert ofan í“

Emil Barja fer yfir málin með sínum konumVísir/Pawel Cieslikiewicz

Emil Barja, þjálfari Hauka, var að vonum svekktur með tapið í kvöld en skrifaði þetta á eitt af þessum kvöldum þar sem ekkert fer ofan í.

„Þær taka miklu fleiri fráköst en við. Við vorum ekki að setja okkar skot, við vorum meira að segja að fá opin sniðskot sem við vorum að klikka úr. Við hittum bara á þannig dag, ég veit ekki hvernig er hægt að útskýra það. Það bara fór ekkert ofan í.“

Eftir að hafa unnið þrjá fyrstu leikina í haust, þar af tvo gegn nýliðum, má segja að Haukar hafi fallið á fyrsta prófi tímabilsins, en Emil hefur þó ekki þungar áhyggjur af framhaldinu.

„Það má segja það. Ég var samt ánægður með margt sem við vorum að gera. Um leið og við hefðum sett sniðskotin og þessa opnu þrista þá hefði þetta verið allt öðruvísi leikur. Þá myndast meiri stemming. Það er mjög erfitt að fara og spila vörn í 20 sekúndur þegar þú ert búinn að klikka úr þremur opnum þristum. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu en við þurfum að gera betur.“

Diamond Alexis Battles, annar af atvinnumönnum liðsins, skilaði litlu í kvöld, en Emil vildi bara fá fleiri körfur heilt yfir.

„Algjörlega. Þær voru bara byrjaður að pakka í teiginn og loka öllu þar því við vorum ekkert að skora fyrir utan. Við þurfum að fá meira fá fleiri leikmönnum og fleiri körfur, það bara segir sig sjálft þegar við skorum 57 stig.“

Emil var furðu léttur í lund þrátt fyrir tapið, enda tímabilið bara rétt að byrja.

„Við erum ennþá líka bara í byrjuninni á tímabilinu. Við vorum að prófa nýja hluti í vörn og prófa nýja hluti. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Við bara gleymum þessum og byrjum upp á nýtt.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira