Fótbolti

Vilja að Barcelona og Atlético mætist í Miami

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Barcelona er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar.
Barcelona er á toppi spænsku úrvalsdeildarinnar. getty/Urbanandsport

Spænska úrvalsdeildin, La Liga, ætlar að freista þess að spila leik Barcelona og Atlético Madrid í desember í Miami í Bandaríkjunum.

FIFA þarf að samþykkja beiðni La Liga en ef Alþjóða knattspyrnusambandið gerir það mun leikur Barcelona og Atlético fara fram í Miami 22. desember. Það yrði þá í fyrsta sinn sem leikur í spænsku úrvalsdeildinni fer fram í öðru landi.

La Liga hefur í nokkurn tíma haft áhuga á að flytja leiki í deildinni úr landi. Barcelona vildi til að mynda mæta Girona í Miami í janúar 2019 en hugmyndin hlaut ekki brautargengi vegna andstöðu spænska knattspyrnusambandsins og leikmannasamtakanna.

Spænski ofurbikarinn fer nú þegar fram í Sádi-Arabíu og næsta skref hjá La Liga gæti verið að spila deildarleiki erlendis.

Í vor setti FIFA á laggirnar starfshóp til að skoða kosti og galla þess að spila deildar- og bikarleiki í öðrum löndum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×