Íslenski boltinn

Daníel hættir en Hilmar Árni og Þórarinn Ingi kveðja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Laxdal hefur leikið með meistaraflokki Stjörnunnar síðan 2004.
Daníel Laxdal hefur leikið með meistaraflokki Stjörnunnar síðan 2004. vísir/hulda margrét

Leikjahæsti leikmaður í sögu Stjörnunnar, Daníel Laxdal, leikur sinn síðasta leik á ferlinum þegar Stjörnumenn fá FH-inga í heimsókn í lokaumferð Bestu deildar karla á laugardaginn.

Auk þess kveðja Stjörnumenn Hilmar Árna Halldórsson og Þórarin Inga Valdimarsson sem hafa verið lengi hjá félaginu.

Daníel hefur leikið rúmlega fimm hundruð leiki fyrir Stjörnuna. Þar af eru 307 í efstu deild en hann er einn leikjahæsti leikmaður í sögu hennar. 

Daníel, sem er 38 ára, lék sína fyrstu leiki fyrir Stjörnuna sumarið 2004. Hann varð Íslandsmeistari með liðinu 2014 og bikarmeistari 2018. 

Hilmar Árni og Þórarinn Ingi voru einnig í bikarmeistaraliðinu 2018. Hilmar Árni kom til Stjörnunnar frá Leikni 2015 og er markahæsti leikmaður félagsins í efstu deild með 66 mörk. Þórarinn Ingi kom til Stjörnunnar frá FH 2018.

Stjarnan er í 4. sæti Bestu deildarinnar með 39 stig, tveimur stigum á eftir Val sem er í 3. sætinu. Til að ná 3. sætinu og þar með Evrópusæti þurfa Stjörnumenn að vinna FH-inga og treysta á að Skagamenn sigri Valsmenn á sama tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×