Fótbolti

„Dæmið okkur eftir eftir næstu sjö leiki“

Siggeir Ævarsson skrifar
Arne Slot er sáttur með byrjunina á tímabilinu en vill ekki fagna of snemma
Arne Slot er sáttur með byrjunina á tímabilinu en vill ekki fagna of snemma EPA-EFE/TIM KEETON

Arne Slot, þjálfari Liverpool, var sáttur með sigur sinna manna á Chelsea í dag en segir ekki tímabært að dæma liðið strax. Liðið hefur unnið tíu af fyrstu ellefu leikjum sínum undir stjórn hans og er á toppi deildarinnar eftir átta umferðir.

„Ég er mjög ánægður með úrslitin. Í fullkomnum heimi hefðum við valtað yfir þá en sú var ekki raunin í dag. Þetta var jafn leikur og við þurftum að leggja hart að okkur til að tapa ekki.“

„En ég var búinn að segja að það ætti ekki að dæma okkur eftir þennan leik. Dæmið okkur eftir næstu sjö. Stærsta prófraun okkar er að spila í Meistaradeildinni og topp leiki í ensku úrvalsdeildinni á þriggja daga fresti. Það er það sem City og Arsenal hafa gert síðustu tvö tímabil.“

„Þið sáuð hvað við áttum í miklum vandræðum með þetta fyrir tveimur árum og United og Newcastle í fyrra. Þetta er prófraunin sem við þurfum að standast til að sjá hvar við erum staddir.“

Það er einmitt alvöru prófraun framundan fyrir Liverpool í næstu viku en liðið leikur gegn Leipzig í Meistaradeildinni á miðvikudag og sækir síðan Arsenal heim næsta sunnudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×