Innlent

Bjark­ey gefur ekki kost á sér

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gegndi embætti matvælaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir gegndi embætti matvælaráðherra í fráfarandi ríkisstjórn. Vísir/Arnar

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingmaður Vinstri grænna og matvælaráðherra, hefur ákveðið að stíga til hliðar og gefa ekki kost á sér í komandi kosningum til Alþingis.

Bjarkey fór fyrst á þing árið 2004 sem varaþingmaður en hefur verið kjörinn þingmaður frá árinu 2013.

Hún greinir frá þessari ákvörðun sinni í færslu sem hún birti á síðu sinni á Facebook.

„Þetta hefur verið afar skemmtilegur tími og ég hef notið þess að hitta fjöldann allan af fólki og mynda góð tengsl víða í kjördæminu í gegnum árin. Það tel ég vera afar mikilvægt enda oft snúið að fylgja eftir mörgum þeim málum sem við landsbyggðarfólk þekkjum svo vel og kallar á sterkar raddir inn á Alþingi. Ég tel að ég hafi sinnt kjördæminu af alúð sem og landinu öllu þessi ár sem ég hef verið á þingi,“ skrifar Bjarkey.

„Ég hef verið í fjarbúð síðastliðin 12 ár og farið heim nærfellt hverja helgi til að njóta samvista við fjölskylduna og er ég þakklát þeim fyrir þolinmæðina og stuðninginn alla tíð,“ skrifar Bjarkey.

Hún segir flókna tíma framundan og að vandasamt verði að vinna úr þeim viðfangsefnum sem ný ríkisstjórn þurfi að kljást við. Hún óskar þeim velfarnaðar í störfum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×