Körfubolti

Helena segir að Þóra sé að upp­skera: Þarf þessa á­byrgð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Kristín Jónsdóttir er í stóru hlutverki hjá Haukunum og liðið er að byrja tímabilið vel.
Þóra Kristín Jónsdóttir er í stóru hlutverki hjá Haukunum og liðið er að byrja tímabilið vel. Vísir/Diego

Þóra Kristín Jónsdóttir og félagar í Haukum eru einar á toppnum í Bónus deild kvenna í körfubolta eftir þrjá sigra í fyrstu þremur leikjunum.

Haukakonur fóru illa með Stjörnuna í síðustu umferð og Bónus Körfuboltakvöld ræddi sérstaklega frammistöðu Þóru það sem af er í vetur.

„Mér finnst ógeðslega gaman að boltinn, ábyrgðin og ákvarðanatakan sé í höndunum á Tinnu [Guðrúnu Alexandersdóttur] og Þóru. Ég er ekki endilega að segja að það hafi verið Kieru að kenna en hún svolítið þannig leikmaður að boltinn sogast til hennar,“ sagði Hörður Unnsteinsson, umsjónarmaður Körfuboltakvölds.

Keira Robinson var bandarískur leikmaður Haukanna í fyrra.

„Kiera og Þóra náðu ekki nógu vel saman. Þóra er alin upp sem leikstjórnandi hjá Haukum og hún þarf bara að fá þessa ábyrgð. Mér finnst hún vera að spila frábærlega núna,“ sagði Helena Sverrisdóttir, nýr sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Í fyrra vorum við öll sammála um það og hún sjálf líka að þetta var ekki tímabilið hennar. Hún er búin að æfa ekkert smá vel og er bara að uppskera núna. Hún lítur svo vel út, það er meiri ákefð í henni og hún er að taka sín skot og setja þau,“ sagði Helena.

„Hún vill ábyrgðina,“ sagði Pálína Gunnlaugsdóttir, hinn sérfræðingur þáttarins í gær.

„Hún er alin upp við þetta og fékk alltaf að vera með boltann. Allt í einu átti hún að vera hlaupa einhvern tvist sem hentaði henni ekki,“ sagði Helena og hrósaði líka Belganum Lore Devos.

„Lore er líka þarna og hún er ógeðslega góð í körfubolta. Þetta er rosalega sterkt lið,“ sagði Helena.

Það má horfa á umfjöllunina um Þóru og Haukana hér fyrir neðan.

Klippa: Körfuboltakvöld kvenna: Umræða um Þóru Kristínu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×