„Já, já, ég sækist eftir endurkjöri í oddvitasæti í Norðausturkjördæmi,“ sagði Njáll Trausti þegar fréttamaður heyrði í honum hljóðið, og innti hann eftir viðbrögðum við framboði Jens Garðars Helgasonar, aðstoðarforstjóra laxeldisfyrirtæksisins Kaldvíkur, í sama sæti.
„Þetta er bara besta mál. Þetta er lýðræðið og ekkert óeðlilegt við það, og ég hlakka bara til,“ segir Njáll Trausti.
Blásið verður til svokallaðs tvöfalds kjördæmisþings til að raða á lista Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu.
„Það er byrjað að kjósa um fyrsta sætið, það er klárað og talið. Svo er kosið um annað sætið og svo framvegis,“ segir Njáll. Hann segir að um leynilega kosningu meðal þeirra sem eigi rétt á að sitja þingið verði að ræða. Því verði lýðræðislega staðið að valinu, þó ekki verði blásið til hefðbundins prófkjörs.
„Það gefst enginn tími fyrir [prófkjör], þetta er stuttur tímarammi.“
Ef svo færi að þú fengir ekki fyrsta sætið, lentir til dæmis í öðru sæti á lista, myndirðu taka því?
„Já, ég reikna með því,“ segir Njáll Trausti.