Leyen bendir í þessu sambandi á nýjan samning milli Ítalíu og Albaníu, um úrvinnslumiðstöðvar í Albaníu fyrir fullorðna karlmenn sem sækja um hæli á Ítalíu.
Mennirnir verða fluttir í miðstöðvarnar þegar þeir hafa sótt um og dvelja þar á meðan umsóknir þeirra eru í úrvinnslu. Stöðvarnar verða reknar af Ítölum og verða skilgreindar ítölsk yfirráðarsvæði, líkt og sendiráð, en Albanir munu sinna öryggisgæslu.
Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, hefur gefið til kynna að Albanir hafi takmarkaðan áhuga á að gera fleiri samninga af þessu tagi og vísað til sérstaks sambands Albaníu og Ítalíu. Þá fól samningurinn í sér að Ítalía myndi gera allt í sínu valdi til að tryggja að Albanía fengi inngöngu í Evrópusambandið.
Samkomulagið er talið munu kosta Ítali 670 milljón evrur á fimm árum.
Þrátt fyrir að hælisumsóknum hafi fækkað verulega síðustu ár virðast mörg aðildarríki Evrópusambandsins vilja ganga enn lengra í að takmarka fjöldann.
Stjórnvöld í Póllandi hafa til að mynda lýst yfir vilja til að hætta að taka við hælisumsóknum þeirra sem koma til landsins frá Belarús og þá eru Finnar þegar hættir að taka við hælisumsóknum frá einstaklingum sem koma til landsins frá Rússlandi.
Stjórnvöld í Belarús og Rússlandi hafa verið sökuð um að „vopnavæða“ hælisleitendur og beina þeim til ákveðinna ríkja til að valda þeim erfiðleikum.