Fótbolti

Åge ræður hvort kallað verði í Albert

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson lék síðast með landsliðinu í EM-umspilinu í mars, í leikjum við Ísrael og Úkraínu.
Albert Guðmundsson lék síðast með landsliðinu í EM-umspilinu í mars, í leikjum við Ísrael og Úkraínu. Getty/Rafal Oleksiewicz

Eftir að landsliðsmaðurinn Albert Guðmundsson var í dag sýknaður af ákæru um nauðgun er það í höndum landsliðsþjálfarans Åge Hareide að ákveða hvort hann taki þátt í leikjunum við Wales og Tyrkland, í Þjóðadeildinni.

Þetta segir Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, í samtali við Vísi. Hareide situr fyrir svörum á blaðamannafundi sem er að hefjast.

Ísland mætir Wales annað kvöld á Laugardalsvelli og Tyrklandi á mánudaginn. Albert er staddur á Ítalíu, þar sem hann er leikmaður Fiorentina, og því þyrfti að hafa hraðar hendur sé vilji til þess að hann tæki þátt í leiknum við Wales á morgun.

„Eins og staðan er núna, þegar þetta mál er búið að fara í gegnum réttarkerfið og niðurstaða komin, þá er það þjálfarans að meta það hvort hann kalli leikmanninn inn í hópinn,“ sagði Þorvaldur við Vísi.

„Það er alveg skýrt í okkar reglum að núna er það undir þjálfaranum komið að ákveða hvort hann velji leikmanninn. Við getum ekki tjáð okkur um málið eða niðurstöðuna að öðru leyti,“ sagði Þorvaldur.


Tengdar fréttir

Albert sýknaður

Albert Guðmundsson knattspyrnumaður var í dag sýknaður af ákæru um nauðgun. Hann var ákærður fyrir að hafa haft önnur kynferðismök en samræði við konu án hennar samþykkis. Dómurinn var kveðinn upp í héraðsdómi Reykjavíkur rétt fyrir klukkan eitt í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×