Erlent

Frétta­menn í bölvuðum vand­ræðum í ó­veðrinu

Jón Þór Stefánsson skrifar
„Það er sársaukafullt að standa hérna úti,“ sagði Robert Ray, fréttamaður Fox.
„Það er sársaukafullt að standa hérna úti,“ sagði Robert Ray, fréttamaður Fox. CNN/Fox

Fellibylurinn Milton gekk á land í Flórída í nótt og hefur valdið miklum skaða. Fjölmiðlar vestanhafs keppast við að fjalla um storminn sem geysar. Nokkrir fréttamenn sem eru á vettvangi hafa lent í bölvuðum vandræðum í óveðrinu.

Anderson Cooper, eitt helsta andlit CNN, var í beinni útsendingu á höfn við borgina Bradenton í Flórída að segja sjónvarpsáhorfendum frá áhirfum Milton þegar óþekktur hlutur fauk í andlitið á honum.

„Þetta var ekki mjög gott. Við förum líklega inn eftir skamma stund,“ sagði hann strax í kjölfarið.

Þrátt fyrir þetta lét Cooper höggið ekki á sig fá og hélt áfram að fjalla um óveðrið.

Þulur CNN tók fram að það væri í góðu lagi með Cooper, en að aðstæður fréttamanna á vettvangi væru vissulega erfiðar.

Robert Ray, fréttamaður Fox News, greindi frá því að stórt tré hefði fallið til jarðar einmitt þar sem hann hafði staðið andartaki áður.

„Þetta tré féll beint á bílinn okkar,“ sagði Ray. Hann segist hafa verið nýbúinn að klára útsendingu þegar hann hafi farið inn í bíl og litið á símann sinn. Þá hafi hann heyrt stóran hvell, þegar fréttið féll.

Þá sagðist hann óttast að annar hluti trésins, sem stóð enn, myndi falla líka.

Þetta var ekki eina augnablikið sem vakti athygli hjá Robert Ray. Á meðan hann var í beinni útsendingu virtist hann eiga erfitt með að halda sér á jörðinni vegna mikils vinds. Hann lýsti því yfir að um væri að ræða verstu aðstæður sem hefðu komið upp á þessu fellibylatímabili.

„Það er sársaukafullt að standa hérna úti,“ sagði Ray.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×