Fótbolti

Þor­steinn hefur gaman að Trump en er frekar Harris megin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorsteinn Halldórsson skellti upp úr þegar hann var spurður út í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum.
Þorsteinn Halldórsson skellti upp úr þegar hann var spurður út í forsetakosningarnar í Bandaríkjunum. vísir/getty

Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir því bandaríska nokkrum dögum fyrir forsetakosningarnar vestanhafs. Landsliðsþjálfari Íslands var spurður að því á blaðamannafundi hvort hann styddi Donald Trump eða Kamölu Harris.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennlandsliðsins, sat fyrir svörum á blaðamannafundi á Laugardalsvelli í dag, eftir að hann hafði tilkynnt hópinn sem mætir Bandaríkjunum í tveimur vináttulandsleikjum seinna í þessum mánuði.

Fyrri leikur Íslands og Bandaríkjanna fer fram í Austin, Texas 24. október. Þremur dögum síðar mætast liðin í Nashville, Tennessee. Þann 5. nóvember ganga Bandaríkjamenn svo að kjörborðinu og kjósa sér forseta. En hvorum megin stendur Þorsteinn í baráttunni um Hvíta húsið?

„Ég bjóst ekki við þessari. Ég skal alveg viðurkenna það,“ sagði Þorsteinn áður en hann svaraði spurningunni óvæntu. 

„Ég veit það ekki. Mér finnst alveg gaman að Trump. Hann er svona skemmtiefni. Ég veit það ekki. Ég held að ég sé frekar Harris megin. Ég er samt ekkert þannig inni í pólitík í Bandaríkjunum að ég sé að hugsa þetta út frá ákveðnum hlutum. En mér finnst Trump ákveðið skemmtiefni en það er kannski ekki akkúrat það sem forseti Bandaríkjanna þarf að hafa.“

Þorsteinn gerði eina breytingu á landsliðshópnum frá síðustu leikjum þess í júlí. Sædís Rún Heiðarsdóttir kemur inn fyrir Kristínu Dís Árnadóttur. Leikirnir gegn Bandaríkjunum verða fyrstu leikir Íslands síðan það tryggði sér sæti á EM í Sviss á næsta ári.

Bandaríkin urðu Ólympíumeistarar í París í sumar og eru á toppi styrkleikalista FIFA. Ísland er í 13. sæti hans og hefur aldrei verið ofar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×