Menning

Henti lista­verkinu í ruslið

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Rafvirkjanum var eflaust fyrirgefið fyrir misskilninginn.
Rafvirkjanum var eflaust fyrirgefið fyrir misskilninginn.

Uppi varð fótur og fit í nútímalistasafni í Hollandi þegar listaverki var hent í ruslið fyrir slysni. Um var að ræða tvær dósir sem litu út fyrir að vera hefðbundnar bjórdósir en eru í raun handmálaðar dósir eftir franska listamanninn Alexandre Lavet.

Í umfjöllun BBC um málið kemur fram að dósirnar, sem í þokkabót virtust beyglaðar, hafi verið á gólfinu í lyftu safnsins. Um er að ræða nútímalistasafnið LAM í Lisse í vesturhluta Hollands en dósirnar eru málaðar líkt og þær séu frá belgíska bjórframleiðandanum Jupiler. 

Fram kemur í svörum frá forsvarsmönnum safnsins að listaverkum sé oft komið fyrir á óhefðbundnum stöðum til þess að koma gestum á óvart. Rafvirki sem var staddur í safninu til að gera við lyftuna hélt eðli málsins samkvæmt að einhver hefði skilið eftir rusl í lyftunni og tók sig því til og henti dósunum.

Sýningarstjóri sem brá sér frá um stutta stund tók stuttu síðar eftir því að listaverkið væri horfið. Þá hófst víðtæk leit og fundust dósirnar að lokum í ruslinu.

Fram kemur að neysluhyggja sé í forgrunni þegar kemur að listaverkum safnsins þessa dagana. Listaverk franska listamannsins sé til marks um það. Gestir séu með verkum safnsins hvattir til að líta á hverdagslega hluti í nýju ljósi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×