Erlent

Grunaði í máli Madelein­e Mc­Cann sýknaður af öðrum brotum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Brückner bjó um árabil nálægt þeim stað þar sem McCann hvarf. Hann verður að óbreyttu látinn laus á næsta ári.
Brückner bjó um árabil nálægt þeim stað þar sem McCann hvarf. Hann verður að óbreyttu látinn laus á næsta ári. Getty/Alexander Koerner

Christian Brückner, sem liggur undir grun um að hafa rænt Madeleine McCann, hefur verið sýknaður af þremur nauðgunum og tveimur kynferðisbrotum gegn börnum.

Brotin voru sögð hafa átt sér stað í Portúgal á árunum 2000 til 2017 en dómarinn í Braunschweig í norðurhluta Þýskalands hafði gefið til kynna í sumar að málalok yrðu þessu, þegar hann sagði ónóg sönnunargögn liggja fyrir.

Brückner mun áfram sitja í fangelsi, þar sem hann er dæmdur barnaníðingur og kynferðisbrotamaður og afplánar nú dóm fyrir að hafa nauðgað 72 ára konu frá Bandaríkjunum í Praia da Luz, þar sem McCann hvarf, árið 2005.

Hann verður að óbreyttu látinn laus í september á næsta ári.

McCann málið kom ítrekað við sögu í réttarhöldunum yfir Brückner og lögmaður hans sagði það hafa „legið eins og þoka“ yfir málunum sem raunverulega voru til umfjöllunar.

Yfirvöld í Þýskalandi hafa ítrekað sagst hafa óyggjandi sönnunargögn fyrir því að Brückner hafi átt þátt í ráninu á McCann en hafa ekki viljað greina nánar frá málavöxtum. Þá hefur lítið verið greint frá stöðu rannsóknar málsins.

McCann hvarf úr leiguíbúð fjölskyldu sinnar á Praia da Luz árið 2007. Hún var þá sofandi í íbúðinni ásamt yngri systkinum sínum en foreldrar hennar voru á veitingastað með vinum, í um 50 metra fjarlægð.

Madeleine var þriggja ára þegar hún hvarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×