Enski boltinn

Sam­herji Stefáns Teits í átta leikja bann fyrir að bíta mót­herja

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Milutin Osmajic læsir tönnunum í Owen Beck.
Milutin Osmajic læsir tönnunum í Owen Beck. vísir/Dave Howarth

Milutin Osmajic, framherji enska B-deildarliðsins Preston, hefur verið úrskurðaður í átta leikja bann af enska knattspyrnusambandinu fyrir að bíta Owen Beck, leikmann Blackburn Rovers.

Auk þess að fá átta leikja bann var Osmajic dæmdur til að greiða sekt upp á fimmtán þúsund pund, eða tæplega 2,7 milljónir íslenskra króna.

Atvikið átti sér stað undir lok leiks Preston og Blackburn 22. september. Beck var rekinn af velli fyrir að ráðast á Duane Holes, leikmann Preston. Mikil ólæti brutust út eftir þetta og Beck sagði dómara leiksins að Osmajic hefði bitið sig. 

Svartfellski framherjinn fékk gult spjald og var svo kærður af enska knattspyrnusambandinu. Og nú er búið að dæma hann í átta leikja bann eins og áður sagði.

Osmajic getur því ekki spilað aftur með Preston fyrr en liðið mætir Derby County 23. nóvember. Osmajic kom til Preston frá Cádiz á Spáni í fyrra. Hann hefur skorað fimm mörk á þessu tímabili.

Fyrir ellefu árum var Luis Suárez, þáverandi leikmaður Liverpool, dæmdur í tíu leikja bann fyrir að bíta Chelsea-manninn Branislav Ivanovic.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×