Fótbolti

Óska eftir hand­tökum vegna her­ferðar gegn Vinicius

Sindri Sverrisson skrifar
Vinicius Junior hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði síðustu ár.
Vinicius Junior hefur ítrekað orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði síðustu ár. Getty/Alvaro Medranda

Forráðamenn spænsku 1. deildarinnar í fótbolta hafa kallað eftir handtökum vegna hatursherferðar gegn brasilíska fótboltasnillingnum Vinicius Junior, fyrir grannaslag Real Madrid og Atlético Madrid á morgun.

Herferðin er með sitt eigið myllumerki á samfélagsmiðlum, #MetropolitanoConMascarilla (Metropolitano með grímu), og er greinilega verið að hvetja stuðningsmenn Atlético til að mæta grímuklæddir á Metrpolitano-leikvanginn. Þannig geti þeir beitt Vinicius kynþáttaníði án þess að hægt sé að sjá hverjir bera sök.

Þrír stuðningsmenn Valencia voru dæmdir í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í sumar, fyrir kynþáttaníð í garð Vinicius á síðustu leiktíð.

„La Liga vill taka fram að farið verður fram á tafarlausar handtökur þeirra sem standa á bakvið hatursherferð sem ýtir undir kynþáttaníð og niðrandi athafnir.

Herferðin felur í sér þann glæp að hvetja til haturs, eins og skýrt er skilgreint í almennum hegningarlögum. La Liga fordæmir harðlega hegðun sem að beint eða óbeint hvetur, ýtir undir eða veldur hatri gegn einstaklingi, í þessu tilviki leikmanninum Vinicius Junior, vegna hans kynþáttar,“ segir í yfirlýsingu spænsku deildarinnar.

Á síðasta ári voru fjórir stuðningsmenn Atlético handteknir fyrir að hengja Vinicius-eftirlíkingu fram af brú í Madrid. Real Madrid lagði líka fram formlega kvörtun til saksóknara í mars, vegna myndbands á samfélagsmiðlum sem sýndi stuðningsmenn Atlético syngja kynþáttaníðssöngva fyrir leik við Inter í Meistaradeild Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×