Körfubolti

Vals­menn neituðu að veita við­töl

Sindri Sverrisson skrifar
Finnur Freyr Stefánsson stýrði Val til Íslandsmeistaratitils í vor, á Hlíðarenda.
Finnur Freyr Stefánsson stýrði Val til Íslandsmeistaratitils í vor, á Hlíðarenda. vísir/Anton

Íslandsmeistarar Vals veittu engin viðtöl eftir tapið gegn Keflavík í kvöld, í Meistarakeppni karla í körfubolta.

Leikurinn var í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og líkt og venja er vildi Andri Már Eggertsson, viðtalsmaður, fá viðtöl við þjálfara bæði Keflavíkur og Vals fyrir leik.

Finnur Freyr Stefánsson neitaði hins vegar að gefa viðtal og samkvæmt því sem fram kom hjá Guðmundi Benediktssyni, sem lýsti leiknum, var ástæðan sú að Finnur var ósáttur við að leikurinn færi fram í Blue-höllinni í Keflavík, en ekki á heimavelli Íslandsmeistaranna eins og venja er.

Báðir leikirnir í Meistarakeppninni, hjá konunum og körlunum, fóru fram í Keflavík í dag í svokölluðum „tvíhöfða“ á Stöð 2 Sport. Keflavíkurkonur eru ríkjandi Íslands- og bikarmeistarar og voru á heimavelli í sínum leik, við Þór frá Akureyri sem þó fagnaði sigri í dag.

Eftir leik Keflavíkur og Vals í kvöld, sem Keflvíkingar unnu nokkuð örugglega, var enginn fulltrúi Vals til viðtals. Finni Frey hafði verið vísað úr húsi í leiknum, vegna orðaskipta við dómara, en hvorki hann né nokkur af leikmönnum Vals gaf kost á viðtali þegar Andri Már og blaðamaður Vísis föluðust eftir því að leik loknum.

Íslandsmeistarar Vals hefja titilvörn sína í Bónus-deildinni næsta föstudagskvöld, þegar þeir sækja Stjörnuna heim, svo fyrsti heimaleikur þeirra á leiktíðinni verður 10. október þegar liðið tekur á móti Þór úr Þorlákshöfn. Keflvíkingar sækja Álftanes heim í fyrstu umferð á fimmtudaginn, þegar keppni í Bónus-deild karla hefst, og sækja svo Hött heim áður en þeir taka á móti Njarðvík 18. október.


Tengdar fréttir

„Mátti þetta ekki í Þýskalandi“

Bikarmeistarar Keflavíkur tóku á móti Íslandsmeisturum Vals í Blue höllinni í kvöld þar sem Meistari Meistaranna í körfubolta karla fór fram. Það voru Keflvíkingar sem höfðu betur með tíu stiga mun 88-98.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×