Íslenski boltinn

Stúkan: Ó­venju miklar á­rásir eða við­kvæmari en aðrir

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Oddur Hafliðason virðist kalla meira eftir spjöldum á varamannabekki liðanna í Bestu deild karla, en aðrir dómarar, samkvæmt Stúkunni.
Gunnar Oddur Hafliðason virðist kalla meira eftir spjöldum á varamannabekki liðanna í Bestu deild karla, en aðrir dómarar, samkvæmt Stúkunni. vísir/Diego

Spjaldagleði dómarans Gunnars Odds Hafliðasonar var til umræðu í Stúkunni á Stöð 2 Sport í gærkvöld. Ítrekað hefur Gunnar Oddur óskað eftir gulu eða rauðu spjaldi, sem fjórði dómari, vegna framkomu manna á varamannabekkjum liðanna í Bestu deild karla í fótbolta.

Gunnar Oddur var fjórði dómari í leik Vals og Stjörnunnar á mánudagskvöld. Dómari í því hlutverki er staðsettur á milli varamannabekkja liðanna og jafnan meira í samskiptum við þjálfara liðanna en aðaldómari leiksins sem er úti á vellinum.

Gunnar Oddur kallaði eftir rauðu spjaldi í leiknum, á Kjartan Sturluson markmannsþjálfara Vals, og er Kjartan sjötti maðurinn sem þrátt fyrir að vera utan vallar fær rautt spjald í sumar, á leikjum Gunnars Odds sem fjórða dómara.

Spjöldin sem Gunnar Oddur hefur kallað eftir í Bestu deild karla í sumar, sem fjórði dómari.Stöð 2 Sport

Inn í yfirlitið hér að ofan vantar rauða spjaldið sem Jón Þór Hauksson, þjálfari ÍA, fékk í lok leiks gegn KR 1. september.

„Um leið og ég sá þetta gerast hugsaði ég hvort að Gunnar Oddur væri fjórði dómari. Þetta er að gerast dálítið oft,“ sagði Baldur Sigurðsson í Stúkunni, um það þegar Kjartan fékk rauða spjaldið.

Nýi Rauði baróninn?

Þáttastjórnandinn Guðmundur Benediktsson sagði erfitt að svara því hvers vegna spjöldin færu ítrekað á loft þegar Gunnar Oddur væri á milli varamannabekkjanna:

„Annað hvort er hann undir óvenju miklum árásum frá varamannabekkjunum, eða að hann er viðkvæmari en hinir. Ég get ekki svarað því. En þegar hann er á milli varamannabekkjanna þá verða meiri læti,“ sagði Gummi.

„Hann er alla vega með yfirburða spjaldatölfræði þegar maður renndi í gegnum alla dómarana í deildinni sem hafa verið fjórði dómari. Svo er hann kominn með fimm rauð í Lengjudeildinni sem aðaldómari. Kannski er hann nýi „Rauði baróninn“?“ sagði Baldur og vísaði í gælunafn dómarans fyrrverandi Garðars Arnar Hinrikssonar. Umræðuna má sjá hér að neðan.

Klippa: Spjaldaglaður fjórði dómari



Fleiri fréttir

Sjá meira


×