Umræðan

Hengd á klafa hnignandi markaðar

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

„Hlutdeild Evrópusambandsins í heimsbúskapnum hefur dregizt saman undanfarna þrjá áratugi þar sem staða þess á meðal stærstu hagkerfa heimsins hefur versnað hratt samhliða uppgangi asískra hagkerfa,“ segir meðal annars í skýrslu sem Enrico Letta, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, vann fyrir framkvæmdastjórn sambandsins um stöðu innri markaðar þess og gefin var út í apríl síðastliðnum. Þar kemur meðal annars fram að efnahagslega hafi Evrópusambandið dregizt verulega aftur úr Bandaríkjunum.

„Jafnvel þó asísk hagkerfi séu ekki tekin inn í myndina hefur innri markaður Evrópusambandsins einnig dregizt aftur úr Bandaríkjunum. Hagkerfin tvö voru svipuð að stærð árið 1993. Hins vegar jókst landsframleiðsla á mann um 60% í Bandaríkjunum á milli 1993-2022 en innan við 30% innan sambandsins,“ segir einnig. Þó Bandaríkin séu mun fámennari en Evrópusambandið, um 335 milljónir manna á móti um 450 milljónum, og að ríkjum sambandsins hafi fjölgað úr 11 í 27 á tímabilinu hefur þessi þróun haldið áfram.

Fram kemur enn fremur í skýrslunni að fyrirtæki í Evrópusambandinu séu eftirbátar fyrirtækja í ríkjum utan þess. Einkum í Bandaríkjunum og Kína. Forskot þeirra hafi mikil áhrif á nýsköpun, framleiðni og atvinnusköpun innan sambandsins og þar með öryggi þess og möguleika til þess að hafa áhrif í framtíðinni. Varað hefur verið árum saman við þessari þróun innan Evrópusambandsins og verið gripið til ýmissra aðgerða undanfarna áratugi til þess að reyna að afstýra henni sem sáralitlum eða engum árangri hafa skilað.

Þróunin í flestum tilfellum í öfugar áttir

Fyrir rúmum 40 árum var hlutdeild Evrópusambandsins í landsframleiðslu á heimsvísu leiðrétt fyrir kaupmætti tæp 26% og var þá stærsti markaðurinn á þann mælikvarða en var komin niður í 20% í upphafi þessarar aldar. Hlutdeild Evrópusambandsins var hins vegar einungis um 14,5% á síðasta ári samkvæmt gögnum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum á meðan hlutdeild Kína var 18,7% og Bandaríkjanna tæplega 15,6%. Spár gera ráð fyrir því að þessi þróun innan sambandsins muni halda áfram á næstu árum.

Yfirlýst markmið forystumanna Evrópusambandsins í viðræðum við brezk stjórnvöld um útgönguna var að fá þau til þess að samþykkja að landið yrði áfram sem mest bundið af regluverki sambandsins til þess að hindra að það yrði samkeppnishæfara en ríki þess.

Tilraunir forystumanna Evrópusambandsins til þess að styrkja stöðu þess gagnvart öðrum mörkuðum á liðnum árum hafa sem fyrr segir meira eða minna runnið út í sandinn. Þar ber einna hæst Lissabon-áætlun sambandsins frá árinu 2000 sem var ætlað að gera það að samkeppnishæfasta markaði heimsins innan áratugs. Fáein ár liðu hins vegar unz áætlunin var lögð á hilluna þegar ljóst var að þróunin væri í flestum tilfellum í öfugar áttir. Hver tilraunin á fætur annarri, stórar og smáar, hafa hlotið sömu eða hliðstæð örlög.

Meðal helztu ástæðna þess að Bretland gekk úr Evrópusambandinu var einmitt sú að veran í því hefði dregið mjög úr samkeppnishæfni landsins. Einkum vegna þess hversu íþyngjandi margt af regluverki sambandsins væri fyrir fyrirtæki og almenning. Yfirlýst markmið forystumanna Evrópusambandsins í viðræðum við brezk stjórnvöld um útgönguna var að fá þau til þess að samþykkja að landið yrði áfram sem mest bundið af regluverki sambandsins til þess að hindra að það yrði samkeppnishæfara en ríki þess.

Dregst aftur úr öðrum efnahagssvæðum

„Það sem er að gerast er að Evrópa er að dragast aftur úr öðrum efnahagssvæðum í verðmætasköpun eða í landframsleiðslu á mann og þar með lífskjörum. Þetta er áhyggjuefni sem er mikið í umræðunni núna innan ESB og Ísland er þar ekki undanskilið. Við eigum alltaf að vera hugsa um hvernig regluverk, reglur og lög, sem er sett hefur áhrif á verðmætasköpun og samkeppnishæfni,“ sagði Sigríður Mogensen, formaður ráðgjafarnefndar EFTA, í Viðskiptablaðinu í febrúar. Ástæðan væri einkum íþyngjandi regluverk.

Við Íslendingar erum vissulega ekki undanskildir. Fyrst og fremst vegna íþyngjandi og kostnaðarsams regluverks frá Evrópusambandinu fyrir bæði fyrirtæki og almenning sem taka þarf upp í vaxandi mæli hér á landi vegna aðildarinnar að EES-samningnum. Regluverk sem hentar oft engan veginn hér á landi, felur í sér mikinn og vaxandi kostnað og dregur úr samkeppnishæfni fyrirtækja og landsins í heild enda hannað með milljóna og tugmilljónaþjóðir í huga sem þykir engu að síður iðulega nóg um framleiðsluna.

Evrópusambandið mun áfram skipta máli sem markaður en í sífellt minna mæli.

Mikill meirihluti íþyngjandi löggjafar fyrir atvinnulífið kemur í gegnum EES-samninginn og dræman árangur í einföldun íþyngjandi regluverks má einkum rekja til þess samkvæmt skýrslu ráðgjafanefndar um opinberar eftirlitsreglur frá 2016. „Það er ekki um það að ræða að við getum einfaldað regluverkið upp á okkar eindæmi nema að litlu leyti meðan við erum aðili að EES-samningnum,“ hafði ViðskiptaMogginn eftir Guðrúnu Þorleifsdóttur, skrifstofustjóra í fjármálaráðuneytinu, 1. nóvember á síðasta ári.

Minna svigrúm til að semja um viðskipti

Með aðildinni að EES-samningnum höfum við Íslendingar hengt okkur á klafa hnignandi markaðar miðað við það sem er að gerast annars staðar. Evrópusambandið mun áfram skipta máli sem markaður en í sífellt minna mæli. Framtíðarmarkaðirnir verða og eru þegar annars staðar. Þá skapar samningurinn hindranir í viðskiptum við slík markaðssvæði. Þannig bendir til að mynda flest til þess að við munum ekki geta gert fríverzlunarsamning við Bandaríkin á meðan við erum aðilar að honum vegna regluverks sambandsins.

Vandséð er þannig að stjórnvöld í Washington væru reiðubúin til þess að fallast á það að innfluttar bandarískar vörur til Íslands þyrftu að taka mið af regluverki Evrópusambandsins sem oft er mjög ólíkt því sem gerist vestra og gjarnan beinlínis hannað til þess að vernda framleiðslu innan þess. Tæknilegar viðskiptahindranir í formi regluverks hafa í seinni tíð komið í stað tolla sem helzta verkfærið til þess að viðhalda verndarhyggju í milliríkjaviðskiptum. Ekki sízt í tilfelli sambandsins þó það sé ekki eitt um það.

Fram kemur til að mynda í greinargerð matvælaráðuneytisins með drögum að reglugerð, sem breyta átti reglum um matvælamerkingar í frjálsræðisátt en náðu ekki fram að ganga vegna EES-samningsins, að regluverk frá Evrópusambandinu sem tekið hafi verið upp í gegnum samninginn hafi „skapað viðskiptahindrun við nánustu viðskiptalönd Íslands utan EES og minnkað svigrúm EFTA-EES ríkjanna til að gera viðskiptasamninga við ríki utan EES.“ Regluverkið myndar þannig rammann sem hægt er að semja innan.

Höfum þegar skipt EES-samningnum út

Markmiðið með skýrslu Letta er að gera enn eina tilraunina til þess að reyna að snúa við hlutfallslegri hnignun Evrópusambandsins sem markaðar. Hins vegar er lausnin sem boðið er upp á í meginatriðum sú sama og áður. Meiri samruni, meiri miðstýring, meira regluverk og að forræði fleiri mála verði flutt frá ríkjum sambandsins til stofnana þess. Þar á meðal og ekki sízt í orkumálum líkt og fram kemur í skýrslunni. Þetta skilar sér síðan yfir í EES-samninginn og þar með hingað til lands vegna aðildar Íslands að honum.

Á sama tíma og óheimilt er að innleiða regluverk frá sambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum EES-samninginn hefur hérlend stjórnsýsla í reynd fullt svigrúm til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Svonefnd gullhúðun regluverks.

Við erum fyrir vikið í vaxandi mæli í þeirri stöðu að þurfa að aðlaga hagsmuni okkar og aðstæður að regluverki sem er hugsað fyrir hagsmuni milljóna og tugmilljóna þjóða. Við erum í raun í verstu mögulegu stöðu í þessum efnum fyrir utan inngöngu í Evrópusambandið. Á sama tíma og óheimilt er þannig að innleiða regluverk frá sambandinu minna íþyngjandi en það kemur í gegnum EES-samninginn hefur hérlend stjórnsýsla í reynd fullt svigrúm til þess að innleiða það meira íþyngjandi. Svonefnd gullhúðun regluverks.

Hins vegar er leið út úr þessum aðstæðum sem ríki heimsins kjósa allajafna að fara þegar þau semja um viðskipti sín á milli. Ekki sízt stærstu efnahagsveldin með sína miklu viðskiptahagsmuni. Þar á meðal sambandið. Leið sem við höfum þegar látið reyna á í stað EES-samningsins í tilfelli Bretlands, annars stærsta viðskiptalands okkar á eftir Bandaríkjunum, án þess að nokkuð færi á hliðina. Víðtækur fríverzlunarsamningur sem þýddi hvorki upptöku sífellt meira íþyngjandi regluverks né framsal valds yfir íslenzkum málum.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál).






×